139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útgáfa vegabréfs til íslensks ríkisborgara.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við eigum að bera virðingu fyrir lögum og reglum og við eigum að bera virðingu fyrir alþjóðasáttmálum sem við eigum aðild að, þar á meðal barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég held að hv. þingmaður ætti að gæta orða sinna þegar hann fellir þunga áfellisdóma í þessu máli.

Ég endurtek og ítreka að það hefur aldrei staðið á íslenskri stjórnsýslu í málinu. Við höfum hins vegar viljað fara að lögum og reglum. Þetta mál snýst um forsjá þessa barns og hver hafi heimild til að taka við umræddum skjölum fyrir hönd barnsins. Við viljum koma í veg fyrir að um þetta rísi deilur á flugvellinum þegar barnið fer úr landi. Við höfum átt fjölmarga fundi með indverskum fulltrúum indverskra yfirvalda um þetta mál til að greiða götu þess. Það er annað en verður sagt um ýmsa sem hafa blandað sér í þessa umræðu.