139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[12:25]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í þessari umræðu hafa stór orð fallið um þann kostnað sem orðið hefur í málinu öllu. Stór hluti af þeim kostnaði er til kominn vegna óska Sjálfstæðisflokksins um málsmeðferðina. Þar á ég sérstaklega við stofnun sérstaks þjóðfundar um málið sem ég held að hafi verið prýðileg hugmynd og skilað gríðarlega góðri vinnu inn í þá vegferð sem fram undan er í málinu. Ég á jafnframt við það hvernig staðið var að stofnun stjórnlaganefndarinnar.

Nú kemur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar hingað og gagnrýnir þann kostnað sem orðið hefur í málinu og heldur því fram að um flýtimeðferð hafi verið að ræða, flausturslega meðferð í gegnum þingið. Flokkurinn hefur hins vegar tekið þátt í vinnunni á vettvangi allsherjarnefndar í alllangan tíma. Það er það sem ég bendi á, að Sjálfstæðisflokkurinn fjallar ekki um málið af þeirri yfirvegun (Forseti hringir.) og ró sem þó hefur einkennt framgöngu fulltrúa flokksins í allsherjarnefnd.