139. löggjafarþing — 67. fundur,  31. jan. 2011.

umhverfisstefna.

360. mál
[17:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Spurning hv. þingmanns lýtur eins og hún er hér flutt að stefnumörkun í m.a. þeim atvinnugreinum sem heyra undir ráðuneyti mitt. Það mætti líka hugsa sér hvort átt er við að Stjórnarráðið, af því að það hefur nú sína eigin umhverfisstefnu líka og ráðuneytin sína innan Stjórnarráðsins, hafi slíkt í verklagsreglum sínum.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður vék að þá er alveg klár stefna, eins og hv. þingmaður rakti, bæði í stefnu Vinstri grænna og einnig ríkisstjórnarinnar, um sjálfbærni í þeim atvinnugreinum sem undir ráðuneytið heyra.

Ef við tökum sjávarútveginn fyrst eru aðgerðir sem gripið hefur verið til í þeim efnum þær að styrkja stöðu hafrannsókna sem eru forsenda fyrir því að við stundum hér sjálfbæra nýtingu og að kynna á erlendum vettvangi hvernig að þeim málum er staðið. Ef við horfum til sjálfbærni innan lands hefur líka verið lögð áhersla á að t.d. vinnsla á þeim fiski sem er aflað á Íslandsmiðum fari fram hér á landi eins og nokkur kostur er þannig að verðmætasköpunin fari fram hér. Við höfum líka horft til þess að friða ákveðna viðkvæma staði á grunnsævinu fyrir stórvirkum veiðarfærum.

Við endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða núna verður einmitt horft til þess líka hvernig koma megi að umhverfishvötum við stjórn fiskveiða. Lögð hefur verið áhersla á að koma með allan afla að landi. Þar hafa reglur verið hertar og kröfur t.d. á uppsjávarflotann og reyndar alla aðila um að koma með aflann að landi og líka að auka verðmætasköpun við vinnslu úr honum. Það hefur skilað miklum og góðum árangri þó að enn megi betur gera. Það hefur því verið alveg skýr stefnumörkun af hálfu ráðuneytisins og ráðherrans í þeim efnum. Það síðasta sem gert var í þessum efnum var að gefa árs aðlögunartíma fyrir þá sem veiða grásleppu til að koma með allt í land, ekki bara hrognin. Það kemur til framkvæmda eftir ár. Þannig er unnið mjög markvisst að þeim þáttum sem hv. þingmaður minntist á.

Í landbúnaðinum er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna einmitt lögð áhersla á sjálfbæra þróun. Lögð er áhersla á fæðuöryggi fyrir íslensku þjóðina hvað landbúnaðarvörur varðar, sem er hluti af því að samfélagið sé sem mest sjálfbært hvað þetta varðar. Þar er líka sérstaklega lögð áhersla á aukinn hlut lífrænnar ræktunar. Á vegum ráðuneytisins hefur verið starfandi sérstakur hópur um það hvernig auka megi stuðning og hvatningu til lífrænnar ræktunar. Sérstöku fjármagni hefur verið varið — þó að það sé ekki mikið, ég viðurkenni það — annars vegar á fjárlögum síðasta árs og líka þessa árs til að hvetja til lífrænnar ræktunar.

Segja má að það sé einnig liður í þessari stefnumörkun að kveða á um að t.d. grænmeti skuli allt vera upprunamerkt þannig að fólk sjái hvaðan grænmetið er sem það er að kaupa í verslunum. Ég tel að upprunamerkingar eigi að vera hvatning til þess að menn iðki sjálfbæra hugmynd í öllu, ekki aðeins í framleiðslunni heldur líka í verslun.

Það má lengi betur gera en þetta er samt klár stefnumörkun og kemur fram bæði í stórum og smáum atriðum.