139. löggjafarþing — 68. fundur,  1. feb. 2011.

Landeyjahöfn og siglingar Herjólfs.

[15:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að Landeyjahöfn olli meiri breytingum frá fyrsta degi en menn höfðu ímyndað sér. Voru þó ýmsir bjartsýnir en einnig fundust menn sem töldu framkvæmdina óráð frá upphafi. Fjöldi þeirra sem lagði leið sína til Eyja á fyrstu mánuðum eftir að Landeyjahöfn opnaðist staðfesti það að framkvæmdin var þörf. Nýir möguleikar höfðu opnast, bæði fyrir daglegar ferðir í atvinnuskyni sem og hefðbundna ferðaþjónustu. Ég held að ég fari rétt með að um 70 þús. manns hafi nýtt sér þennan möguleika á fyrstu mánuðunum.

Það var því mörgum áhyggjuefni þegar fyrstu hnökrarnir á því að Herjólfur gæti siglt inn í Landeyjahöfn komu í ljós. Höfðu efasemdamennirnir þá kannski rétt fyrir sér eftir allt saman? Hafði framkvæmdin verið feigðarflan? Sjálfur getur sá sem hér stendur vitnað að upphaflega var hann efasemdamaður um framkvæmdina og hlustaði þar á raddir þaulvanra skipstjórnarmanna fyrir suðurströndinni. En eftir að hafa kynnt mér framkvæmdina og séð byltinguna á samgöngubótunum með eigin augum snerist mér hugur.

Virðulegi forseti. Í hverju lá og liggur þá vandinn og að því er virðist vandræðagangur stjórnvalda? Fjöldi ferða hefur fallið niður, stundum vegna veðurs sem vissulega enginn getur varist en oft vegna þess að Herjólfur getur ekki siglt inn í Landeyjahöfn vegna þess að þar fyrir utan og við innsiglinguna er grunnt, þ.e. of mikill sandur hefur safnast upp, og núverandi Herjólfur, gamli Herjólfur, ristir of djúpt.

Á tímabili um áramót stefndi í og var rætt um að Herjólfur mundi jafnvel ekki sigla í Landeyjahöfn næstu mánuði. Það hefur eitthvað breyst. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hverju má gera ráð fyrir í sambandi við siglingar Herjólfs næstu mánuði? Mun hann sigla í Landeyjahöfn? Er komið eitthvert plan hvað það varðar? Hvað hefur verið gert til að minnka frátafir, auka ferðatíðni og tryggja öryggi?

Á tímabili var vandræðagangur hjá stjórnvöldum við að ganga frá samningum, m.a. um varahöfn við Sveitarfélagið Ölfus. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé búið að ganga frá slíkum samningum við Þorlákshöfn. Er eitthvað í vegi fyrir að gefa út áætlun sem gerir ráð fyrir báðum höfnunum, þ.e. Landeyjahöfn og svo Þorlákshöfn yfir vetrarmánuðina? Það verður ekki um Landeyjahöfn og Herjólf og vandræðaganginn fjallað öðruvísi en að minnast á þá sérkennilegu umræðu sem þeir aðilar stóðu fyrir sem mest áttu að vita um málið frá upphafi. Af fréttaflutningi fjölmiðla og viðtölum, m.a. við fyrrverandi aðstoðarmann samgönguráðherra og formann stýrihóps um Landeyjahöfn, hv. þm. Róbert Marshall, mátti skilja að skortur væri á pólitískri forustu. Hv. þingmaður hélt því fram í viðtali við RÚV um áramótin og sagði m.a. að langlundargeð hans og fleiri gagnvart ástandinu í Landeyjahöfn væri löngu þrotið. Þetta þótti þeim sem hér stendur sérkennilegt þar sem það var akkúrat þáverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, téður aðstoðarmaður hans og þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem báru ábyrgðina, hina pólitísku ábyrgð. Þetta áttu menn sem sagt að vita, ekki síst þeir ráðamenn sem mest véluðu um málið. Staðreyndin er nefnilega sú að hönnuðir hjá Siglingastofnun bentu þegar haustið 2008 á það að frestun á því að kaupa nýtt skip sem risti grynnra mundi þýða meiri frátafir eða frekari niðurfellingu ferða. Orðrétt stendur í 3. tbl. 12. árgangs 2008 Til sjávar, fréttabréfi Siglingastofnunar, með leyfi forseta:

„Í ljósi aðstæðna var á ríkisstjórnarfundi í nóvember ákveðið að fresta kaupum á fyrirhugaðri ferju í hina nýju Landeyjahöfn þar til betur árar, en samningaviðræður Siglingastofnunar við þýska skipasmíðastöð voru langt komnar.

Unnið er að því að skoða leiðir til lausnar, en einkum og sér í lagi hafa tveir kostir verið ræddir: Annars vegar að nota gamla Herjólf eða hins vegar að leigja tímabundið ferju sem hentar aðstæðum betur en hann. Til að minnka frátafir verður ferðaáætlun mögulega breytt þannig að skipið sigli um sumartímann í Landeyjahöfn, en að vetrarlagi í Þorlákshöfn þegar tíðafar er rysjóttara.“

Staðreyndin er nefnilega sú að menn vissu þetta. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær og hvernig var staðið að því að hætta við nýjan Herjólf? Hvar er stödd vinnan við að kaupa nýtt skip? Hverjir leiða þá vinnu? Hvenær verður tekin ákvörðun um að kaupa nýtt skip? Eru uppi hugmyndir um að hafa áætlanir sem gera ráð fyrir siglingum í Þorlákshöfn að vetrarlagi?

Augljóslega mátti í jafnstóru og -umfangsmiklu verki búast við að ekki lægju allar upplýsingar fyrir um náttúrulegar breytur, hvað þá hvaða áhrif eldgos í Eyjafjallajökli mundi hafa. Þá hefur verið langvarandi suðaustanölduátt sem er óvenjuleg í svo langan tíma, þ.e. í nærri tvö ár. Sú suðaustanátt hefur átt drýgstan þátt í sandfærslunni við innsiglinguna, hefur haft neikvæð áhrif þar en reyndar þær jákvæðu afleiðingar að hún hefur byggt upp sandfjöruna við Vík í Mýrdal á sama tíma. Þekking á hegðun sjávarstrauma fyrir utan Landeyjahöfn hefur auðvitað stóraukist og samhliða betri þekkingu, eðlilegri sjávarstraumum en ekki síst nýjum Herjólfi þarf ekki að óttast framtíðina. Við þurfum hins vegar að vita: (Forseti hringir.) Er væntanlegur nýr Herjólfur og hvað á að gera þangað til hann kemur?