139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað lýtur að því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, þegar hann talaði um þann árangur sem þó hafði náðst á milli þessara samninga, er ég algjörlega sammála honum. Það fer ekki milli mála, hvorki í nefndaráliti okkar í 2. minni hluta né í ræðu minni, að málinu fylgir áhætta. Við erum ekkert að reyna að hylja það.

Hins vegar vil ég rifja það upp í ljósi orða hv. þingmanns, við munum það báðir tveir, hvað gerðist þegar samningnum var hafnað. Það voru skilaboð til Breta og Hollendinga. Þá hrukku þeir við og voru tilbúnir að ræða þessa hluti á jafnræðisgrundvelli þó það sé endalaust hægt að deila um hvar sú lína liggur akkúrat. Öll vildum við hér inni að þessi upphæð væri mun lægri og að áhættan væri líka mun minni.

Ég kom inn á það í ræðu minni að aðkoma stjórnarandstöðunnar í heild sinni og samstaða hennar í umræðunni haustið 2009 í lengstu umræðu í þingsögunni hafi verið til góðs. Ég man vel eftir þegar hv. stjórnarliðar gerðu grín að okkur. Það er spurning, eins og reyndar hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, hvort þeir sömu aðilar og voru tilbúnir að skuldbinda þjóðina fyrir 490 milljarða, og kölluðu okkur lýðskrumara sem reyndum að verja hagsmuni þjóðarinnar, mundu kannski fara að svara fyrir eitthvað af því sem þeir hafa áður látið falla um málið.

Hvað sem öðru líður þá kemur hv. þingmaður inn á mjög mikilvægt atriði í lok andsvars síns, þ.e. gjaldeyrisáhættuna. Hennar er sérstaklega getið í nefndaráliti okkar, að það þurfi að skipta þessum krónum. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það er mikið áhyggjuefni ef menn fara ekki að framleiða og búa til meiri gjaldeyri, eins og hann vísaði til í mjög góðu áliti GAMMA, einu af mörgum, þar sem það kemur mjög skýrt fram. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því.