139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Dómstólaleiðin felur í sér mikla áhættu. Sérfræðingar hafa nefnt að nýi samningurinn sé í áhættu talið frá 0 krónum og upp í 47 milljarða. Einnig hefur verið nefnt að dómstólaleiðin kunni að fela í sér áhættu frá 0 krónum og upp í 500 milljarða. Menn segja það vera mun meiri áhættu en af samningnum. Þetta kom ítrekað fram á fundum fjárlaganefndar sem sá er hér stendur sat. Þetta er einungis mat. Lögfræðingarnir sem unnu og komu fyrir nefndina gátu ekki svarað þessu með afgerandi hætti, þeir voru ósammála um þetta atriði.

Þar sem lögfræðin endar verður pólitíkin að taka við. Það er okkar ásamt öðrum að meta þetta atriði og komast að pólitískri niðurstöðu um hvort við eigum að fara að nýjum samningi, áhættu frá 0 krónum og upp í 47 milljarða, eða taka hina áhættuna og þá jafnframt áhættuna sem hlýst af töfum málsins sem gæti varað í missiri, sumir hafa nefnt tvö ár aðrir styttri tíma. Málið hefur verið til umfjöllunar hjá Alþingi í 21 mánuð. Fá ef nokkur mál hafa fengið meiri umfjöllun á síðari árum í nefndum og innan þingsala. Nú er komið að því að slíta frá sér valkvíðann.