139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:33]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég man rétt viðhafði hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson nákvæmlega sömu orð þegar átti að samþykkja síðustu samninga, að þetta væri útrætt, hefði fengið ítarlega umfjöllun og því ætti að samþykkja þetta. Gott og vel. Meiri hlutinn leggur áherslu á að áhætta af töfum málsins sé metin. Þingmaðurinn vitnar í nefndarfundi sem ég sat. Ég hef farið yfir gögn málsins og tölurnar sem hann nefnir finn ég hvergi. Af hverju er það? Jú, vegna þess að þær er hvergi að finna og sérfræðingarnir sem eru ósammála skrifa 6–7 línur um mat á áhættu af því að láta reyna á málið fyrir dómstólum. Samt fullyrða menn að þetta geti haft gríðarlega mikla áhættu og skuldbindingar í för með sér. Af hverju metum við þetta ekki? Ég hef reynt að fara varlega í meiri hlutann vegna þess að ég vonast til (Forseti hringir.) að alþingismenn læri eitthvað af mistökunum sem gerð hafa verið en ég skal ekki segja. (Forseti hringir.) Ég vona samt að svo verði.