139. löggjafarþing — 69. fundur,  2. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:10]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra og þá er líka eytt þeim hviksögum að Sjálfstæðisflokknum sé stjórnað af sprungusvæðinu við Rauðavatn og verður gaman að lesa Morgunblaðið á morgun. En vegna þess sem komið hefur fram geri ég athugasemd við að staða Íslands í þessu máli hafi verið sterk. Ég held alls ekki að hún hafi verið sterk, ég held að við höfum verið sammála um það í desember 2008, við hv. þingmaður, að nauðsynlegt væri að ganga til samninga um málið og að sá samningur mundi því miður, jafnömurlegt og það er, fela í sér verulegan kostnað fyrir íslenska þjóð. Sjálfstæðisflokkurinn er fyrst og fremst samkvæmur sjálfum sér í því að taka þá afstöðu sem hann tekur hér í dag til þess að leysa úr því sem Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin stóðu að, þau ollu með sínum (Forseti hringir.) hætti hruninu [Kliður í þingsal.] árið 2008.