139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[11:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan. Ég fæ ekki séð hvernig væri hægt að komast allt í einu að þeirri niðurstöðu að Íslendingar ættu að bera ábyrgð á öllum innstæðum. Ég ítreka jafnframt að það er hvort eð er verið að nota eignir þrotabúsins til þess að standa undir nærri öllum innstæðum og það er verið að gera betur við breska og hollenska innstæðueigendur en íslenska vegna ólíkra aðstæðna. Þeir fá greitt í sínum gjaldmiðli en íslensku innstæðueigendurnir í krónum þannig að jafnvel þó að þetta 0,1%-dæmi yrði fæ ég ekki alveg séð að það mundi hafa þær afleiðingar sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af.

Svo virðist sem þeir sem óttast dómstólana, þeir sem telja að við töpum málinu, geri það vegna þess að þeir telji að dómstólarnir séu pólitískir. Þeir sem telja að dómstólar dæmi samkvæmt lögum gera ráð fyrir því að Íslendingar vinni málið, (Forseti hringir.) enda er það lagalega sterkt. Í þessu samhengi er alltaf verið að tala um Evrópudómstólinn en eigum við ekki frekar að tala um Héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt? (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þeir mundu dæma af pólitískum ástæðum gegn Íslendingum?