139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem við verðum að taka til gagngerðrar endurskoðunar á Alþingi. Annars vegar þegar við semjum lög, en ég tel að það sé eitt af stóru vandamálum Alþingis að lagasetningu er verulega ábótavant eins og stjórnlagaþingsmálið ber hvað mest vitni um.

Hins vegar vil ég nefna að hér á landi eru ekki nægilega skörp skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Hæstv. ráðherra er handhafi framkvæmdarvalds og ber sem slíkum að fara eftir þeim lögum sem sett eru á Alþingi, jafnvel þótt þau séu ekki nægilega vel úr garði gerð. Honum ber að fara eftir lögum Alþingis og hann getur ekki setið beggja megin borðs. Það fer ekki á milli mála að hæstv. ráðherra er mikill umhverfissinni, þeim málaflokki ætti hann að sinna sem alþingismaður. Af hverju gengur þetta ekki? Jú, vegna þess að þetta bitnar á almenningi í landinu. Almenningur þarf að ganga út frá því sem vísu að ráðherrar, handhafar framkvæmdarvaldsins fari eftir lögum í hvívetna.

Hér ræddu menn að náttúran og almenningur færu saman, hagsmunir þeirra gagnvart hagsmunum atvinnulífsins og fyrirtækja. Hagsmunir almennings eru ansi margir. Auðvitað eru hagsmunir almennings fólgnir í því að við göngum vel um náttúruna, að sjálfsögðu. En þeim er líka best borgið með því að hér sé atvinnustarfsemi, atvinnuuppbygging og hér sé ekki atvinnuleysi. En fyrst og fremst verður almenningur að geta treyst því að farið sé að lögum. Það gerði hæstv. ráðherra ekki. Hæstiréttur er búinn að úrskurða um það og á því verður ráðherra að bera pólitíska ábyrgð. Það er ekki öðruvísi sem okkur tekst að endurvekja virðingu Alþingis.