139. löggjafarþing — 72. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[00:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur oft og tíðum í umræðum um þetta mál talað þannig að draga megi þá ályktun að hann leggi töluvert upp úr prinsippum. Nú hefur því verið haldið fram í erlendum fjölmiðlum, m.a. af ritstjórn Financial Times, að Bretar og Hollendingar séu að reyna að fá Íslendinga til að fallast á hluti sem ríkisstjórnir þeirra landa mundu aldrei láta sér detta í hug að fallast á væru þau í stöðu Íslendinga. Það held ég að sé rétt mat. Spurningin er þá: Hvenær kemur sá tímapunktur, ef hann kemur einhvern tíma yfir höfuð, að réttlætanlegt sé fyrir lítið ríki að gefa eftir gagnvart stærri ríkjum eingöngu vegna þess að hin ríkin eru stærri og valdameiri eða eiga menn að leggja það mikið upp úr prinsippinu að þeir gefist ekki upp?

Hitt sem ég vildi gjarnan spyrja um — af því að þingmaður nefndi að sumir telja hagsmunum Íslands best borgið með því að ljúka málinu núna, þá tel ég í fyrsta lagi að með því að samþykkja tillöguna sé ekki verið að ljúka málinu, látum það liggja á milli hluta, en það er rétt, margir vilja klára málið — er hv. þingmaður þá sammála mér um það að engu að síður eigi það að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu?