139. löggjafarþing — 73. fundur,  16. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hingað kom hæstv. forsætisráðherra upp áðan og sannaði að ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra hafa ekkert lært á síðustu tveimur árum. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir, með miklum blæ af þeim hræðsluáróðri sem við höfum orðið vör við frá ríkisstjórninni undanfarin tvö ár, að ef menn féllust ekki á þessar kröfur væri hætta á því að málið færi fyrir dómstóla og gæti þar tapast með skelfilegum afleiðingum, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það. Reyndar hafa ekki verið færð almennileg rök fyrir því hverjar þær skelfilegu afleiðingar gætu orðið. En þær eru sem sagt að Íslendingar þurfi að taka á sig kröfur upp á 1.100–1.200 milljarða að mati hæstv. forsætisráðherra. Reyndar drægjust frá þeim eignir þrotabús bankans upp á 1.100 milljarða. Versta hugsanlega og jafnvel óhugsanlega niðurstaða í þessu máli ef allt fer á versta veg, verr en menn geta ímyndað sér, þá er tapið samt miklu minna en það tap sem var augljóst af síðasta samningi, samningnum sem ríkisstjórnin sagði að væri ekkert mál að afgreiða, væri nauðsynlegt að afgreiða. (Forseti hringir.) Versta hugsanlega niðurstaðan núna, skelfilega niðurstaðan sem við eigum að forðast, er samt miklu skárri en ríkisstjórninni fannst í lagi að fallast á. Þetta segir allt sem segja þarf um málflutning ríkisstjórnarinnar í þessu máli.