139. löggjafarþing — 75. fundur,  17. feb. 2011.

upplýsingalög.

381. mál
[13:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var eitt atriði sem ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra um í sambandi við þetta frumvarp og í tilefni af orðum hennar í framsöguræðunni. Það snertir nánari útfærslu á því hvað teljist vera vinnugögn stjórnvalda. Þetta er atriði sem væntanlega verður farið yfir á vettvangi allsherjarnefndar. Ég vildi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það væri mat hennar að með þessu væri hugsanlega verið að þrengja aðgang að upplýsingum. Ég tek fram að ég hef ekki skoðað það ofan í kjölinn en í fljótu bragði heyrist mér að hætta geti verið á því að þarna sé í rauninni verið að skilgreina vinnugögn það vítt að það geti leitt til takmörkunar á upplýsingum. Ég vil á þessu stigi umræðunnar gjarnan heyra mat forsætisráðherra á því hvort þau tilteknu atriði sem snúa að því að ítarlega sé farið í hvað teljist vinnugögn stjórnvalda geti falið í sér slíkar takmarkanir.