139. löggjafarþing — 78. fundur,  24. feb. 2011.

virðisaukaskattur.

393. mál
[15:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hafði verið áhugamál innan fjármálaráðuneytisins í allmörg ár að leggja niður flutningssjóð olíuvara. Fram komu tillögur þess efnis sem lagðar voru fyrir þingflokk Framsóknarflokksins sem mótmælti því skipti eftir skipti, enda fór það svo að þess vegna kom það ekki fram í frumvarpi þáverandi ríkisstjórnar til fjárlaga. Nú segir hv. þingmaður að Samfylkingin hafi í raun og veru ætlað að samþykkja óbreytt frumvarp sem fyrri ríkisstjórn hafi verið búin að leggja fram. Ég velti því fyrir mér: Hvernig stendur á því að frumvarpið var lagt fram með þeim hætti að flutningssjóður olíuvara skyldi lagður niður? Það var 1. umr. um málið hjá nýrri ríkisstjórn. Og að ætla það að þingflokkur Framsóknarflokksins hefði nokkurn tímann samþykkt það eða hleypt því í gegn þannig að mælt yrði fyrir því í frumvarpi til fjárlaga sem Framsóknarflokkurinn ætti aðild að er einfaldlega ekki sannleikanum samkvæmt, enda höfðum við hafnað því í mörg ár.

Mér þykir leitt að hv. þingmaður skuli vera svona reiður yfir þessari söguskýringu minni en hún er einfaldlega rétt. Það var ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem lagði það fram í frumvarpi til fjárlaga að flutningssjóður olíuvara yrði lagður niður. Ég get sýnt hv. þingmanni það frumvarp og auðvitað ber þingflokkur Samfylkingarinnar ábyrgð á því. Þess vegna er alveg fáránlegt að heyra hvernig hv. þingmaður leggur það hér upp að það sé Framsóknarflokknum að kenna að þingflokkar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins hafi lagt þetta til í fjárlagafrumvarpi. Þetta er einfaldlega ekki boðleg umræða. Við börðumst hatrammlega gegn því á haustþingi árið 2007 að þetta yrði gert og við náðum því fram sem betur fer og þingmenn flestallra flokka voru á því. En mér þykir leiðinlegt hve hæstv. ráðherra er fastur í fortíðinni, hann leitar jafnvel 10, 15 ár aftur í tímann til (Forseti hringir.) að reyna að verja slæma málefnastöðu núverandi ríkisstjórnar.