139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sú spurning sem hv. þingmaður beinir til mín varðar meginefni þess frumvarps sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra mun flytja síðar á þessu þingi. Það er um breytingar á lögum nr. 28/2001 þar sem sett verða fram skilgreiningar og skilyrði fyrir því að geta orðið vottunaraðili. Það er það sem felst m.a. í þessum svokallaða traustlista. Nöfn þeirra aðila sem þá verða valdir og uppfylla þau skilyrði verða birt þar. Ég get ekki svarað hv. þingmanni gerr á þessu stigi um það efni.

Varðandi síðan hinar tvær fyrri spurningar hv. þingmanns spyr hún í fyrsta lagi hvort Íslendingar hafi komið á framfæri athugasemdum við margar tilskipanir. Svo er. Íslenskir fulltrúar taka þátt í gríðarlega mörgum fundum í mjög mörgum nefndum. Við eigum kost á því að sitja í nefndum sem ég held að telji hátt á fjórða hundrað. Við komumst auðvitað ekki yfir það allt en erum í góðu samstarfi við aðrar þjóðir til að fylgja þeim nefndum eftir. Á þeim stigum geta menn komið fram með athugasemdir og það hefur verið gert. Ég get ekki sagt henni hversu margar, þær koma fram með mismunandi hætti á mismunandi mótunarstigum þeirra.

Hin spurningin varðar það hvort þingið ætti með einhverjum hætti að koma fyrr að tilskipunum og því að koma fram með afstöðu sína. Mín afstaða liggur fyrir í því. Ég hef um margra ára skeið verið þeirrar skoðunar að þingið eigi að hafa fulltrúa í Brussel, við Evrópuþingið sem er orðið miklu meira ráðandi núna um jafnvel lykilákvarðanir. Ég tel að það væri mjög þarft, m.a. vegna þess að ef upp koma mál sem varða hagsmuni Íslands er líklegt að allir þingflokkarnir séu sammála um þá hagsmuni, og þeir hafa allir aðgang að þingflokkum sínum þar úti, í flokkahópum. Ég tel að slíkt fyrirkomulag gæti varið hagsmuni Íslands.

Að mínu viti eru þess dæmi að það hefði verið (Forseti hringir.) miklu farsælla að koma miklu fyrr að ýmsum tilskipunum sem (Forseti hringir.) hefðu getað sparað Íslandi mjög háar upphæðir.