139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:15]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga, sem hefur frá stofnun verið stjórnlagaþing þjóðarinnar, eigi nú þegar að hefjast handa við að gera tillögur að breytingum á stjórnarskránni. Þær tillögur eiga að byggja á þeirri miklu vinnu sem fyrir liggur, bæði hjá þeirri stjórnlagaþingsnefnd sem starfað hefur og á grundvelli þeirrar vinnu sem fyrri stjórnarskrárnefndir hafa unnið. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að breyta stjórnarskránni, ekki endilega mjög mikið en það þarf að gera á henni breytingar. Ég tel og hef alltaf talið að það eigi að vera hlutverk Alþingis.

Sé það hins vegar þannig að enn sé meiri hluti fyrir því á Alþingi að skipa sérstakt stjórnlagaþing eða koma á fót einhverri samkomu annarra manna en alþingismanna til að vinna það verk hefði ég talið að miklu eðlilegra hefði verið, og miklu skynsamlegri niðurstaða, að láta fara fram aðra kosningu úr því að Hæstiréttur Íslands ógilti þá sem fram fór. Það hefði mér þótt miklu rökréttari niðurstaða þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga sé, eins og það er samkvæmt stjórnarskránni, stjórnarskrárgjafinn. Það kemur fram í ákvæðum stjórnarskrárinnar að þannig er það.

En ef menn eru þeirrar skoðunar að blása eigi til stjórnlagaþings eða fela öðrum hópi manna þetta verkefni þá hefði átt að kjósa aftur.