139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig hvað hv. þm. Mörður Árnason hefur mikinn áhuga á sögu Sjálfstæðisflokksins og hvernig hann sér hana. Það er reyndar allt annað en ég sé dagsdaglega. (Gripið fram í: Ertu ekki kominn með nýjan augastein?) Ég er líka kominn með nýjan augastein, já, það er rétt hjá hv. þingmanni.

Ég kannast ekkert við þessa sögu en mér fannst vera dálítið beiskur tónn í ræðu hv. þingmanns og það er leiðinlegt vegna þess að þetta er ungur maður og hann á ekki að vera svona beiskur. Það er kannski vegna þess að hann styður ríkisstjórn sem bregst honum í öllum málum aftur og aftur og hann verður líka vitni að því að hæstv. ráðherrar sem hann styður eru með hæstaréttardóm á bakinu. Það er ekkert sérstaklega skemmtilegt og ég átta mig alveg á því að hv. þingmaður geti orðið beiskur út af því öllu saman.

En mig langaði til að spyrja hv. þingmann af því að það kom ekki skýrt fram í ræðu hans sem fjallaði aðallega um Sjálfstæðisflokkinn: Vill hann breyta stjórnarskránni? Telur hann nauðsyn að breyta stjórnarskránni, sem ég tel að flestir þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji? Vill hann slást í þann hóp?

Í öðru lagi: Vill hann stjórnlagaþing? Vill hann fara þessa leið til að kjósa stjórnlagaþingið? Hann talaði reyndar um að það væri betra að hafa uppkosningu en svo skilst mér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi breytt skoðun hans vegna þess að ef Sjálfstæðisflokkurinn er á móti einhverju verður hann að vera hlynntur því.

Svo segir hv. þingmaður, sem ég er mjög hrifinn af, að úrskurður Hæstaréttar sé nauðsynlega réttur. Finnst honum þá rétt láta eins og Hæstiréttur hefði ekki fellt úrskurð sinn? Með þessari þingsályktunartillögu, sem mér skilst að hv. þingmaður styðji þó að ég hafi ekki alveg náð því vegna aðdáunar hans á Sjálfstæðisflokknum eða sögu hans, er verið að búa til aðstæður sem eru nákvæmlega eins og ef Hæstiréttur hefði ekki fellt neinn dóm. Hvað þýðir það? Að úrskurður Hæstaréttar sé nauðsynlega réttur?