139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

fjarskipti.

136. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt hér nefndarálit samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 81/2003, með síðari breytingum. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölda gesta til að fara yfir það auk þess sem fjöldi umsagna barst nefndinni um málið.

Með frumvarpinu er áætlað að gera breytingar á ýmsum ákvæðum fjarskiptalaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir að til þess að Ísland megi vera í fremstu röð tæknivæddra ríkja með aðgengilega, hagkvæma og örugga fjarskiptaþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja að íslenskt lagaumhverfi fylgi eftir þeirri hröðu tækniþróun og öru breytingum sem eru helsta einkenni fjarskiptamarkaðarins. Þeim breytingum sem ætlunin er að leiða í lög með frumvarpinu má skipta helst í þrjá meginhluta. Í fyrsta lagi er áætlað að gera breytingar á fjarskiptaáætlun með það að markmiði að samræma áætlanagerð innan innanríkisráðuneytisins, sem og að samræma hana við aðrar áætlanagerðir hins opinbera. Í öðru lagi er áætlað að gera breytingar á reglum um stjórnun á úthlutun tíðna í þeim tilgangi að auka hagkvæmni og skilvirkni stjórnunar tíðnimála. Í þriðja og síðasta lagi er síðan áætlað að einfalda stjórnsýslu er varðar fjarskiptabúnað og koma í veg fyrir réttaróvissu á því sviði og bæta við nýmælum í þágu almannahagsmuna.

Nefndin tók málið til umfjöllunar á haustþingi. Í nóvember og desember 2010 fékk nefndin kynningu á málinu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, tók á móti gestum og ræddi málið. Þegar líða tók að þinghléi um jólin lá ljóst fyrir að nefndinni tækist ekki að ljúka umfjöllun um málið fyrir jólahlé Alþingis. Var þá brugðið á það ráð að nokkrir nefndarmanna fluttu frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum í þeim tilgangi að tryggja að ríkissjóður yrði ekki af tekjum þar sem frumvarp það sem hér ræddi um yrði ekki að lögum fyrir áramót en gera nefndinni á sama tíma fært að fjalla betur um málið að jólahléi loknu. Frumvarpið sem nefndarmenn fluttu varð að lögum nr. 146/2010 með samþykki Alþingis þann 18. desember 2010.

Fram hefur komið sú gagnrýni á það frumvarp sem hér um ræðir að það feli í sér innleiðingu á Evrópugerðum sem ekki eru orðnar hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þó væru téðar gerðir ekki innleiddar í heild heldur væru einstaka ákvæði þeirra tekin út en öðrum sleppt og af þeim sökum væri hætta á að heildarsamræmi gerðanna glataðist, áherslur þeirra skekktust og markmið þeirra næðu ekki fram að ganga. Þá kom fram sú skoðun að ýmis ákvæði frumvarpsins stönguðust á við gildandi EES-rétt. Á móti var nefnt að sú Evrópugerð sem einkum hefur verið litið til við samningu frumvarpsins sé ekki heildstæð löggjöf heldur breytingagerð sem breytir núgildandi reglum á ýmsum stöðum í regluverkinu. Engu að síður er mikilvægt að taka tillit til nýrra ákvæða í regluverki sambandsins hvað varðar slík atriði en að öðrum kosti fáist ekki samræmi við þróun evrópskra reglna. Sérstaklega hefur verið gætt að því að taka heildstætt tillit til umhverfis tíðnimála í öllum nýjum Evrópugerðum sem um málið fjalla, m.a. við útfærslu á 3. gr. frumvarpsins þar sem sérstaklega er tekið fram að við töku ákvarðana skuli m.a. tekið tillit til hvata og áhættu við fjárfestingar. Þá er tekið fram að leitað hafi verið óformlega álits ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, og í framhaldinu hefðu öll ákvæði er stönguðust á við gildandi EES-rétt verið felld út úr frumvarpinu á vinnslustigi þess. Að síðustu kom fram að tíðar breytingar á fjarskiptalögum orsökuðust m.a. af breytingum á regluverki vegna svokallaðs alþjónustugjalds og rekstrargjalds Póst- og fjarskiptastofnunar sem ætluð væru til þess að standa straum af kostnaði við alþjónustukvöð annars vegar og rekstur stofnunarinnar hins vegar. Gjöldin eru endurskoðuð árlega og stundum leiðir það til lagabreytinga.

Að mati nefndarinnar mætast hér gagnstæð sjónarmið, annars vegar sjónarmið um að haga beri innleiðingu Evrópugerða þannig að tryggt sé að þær fari ekki gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og að slíkri innleiðingu beri að haga á þann veg að tryggt sé að íslenska ríkið glati ekki rétti í því ferli að óskoðuðu máli. Hins vegar er það sjónarmið að taka verði tillit til örrar þróunar og tækniframfara á sviði fjarskiptamála enda leiði þær stundum til þess að knýjandi verður að uppfæra löggjöf á sviði fjarskiptamála. Þannig verður ekki hjá því litið að nauðsynlegt kunni að vera að tryggja tæknilega getu og hagræðingu fjarskiptafyrirtækja með lagasetningu þegar tilefni verður til.

Tillögur nefndarinnar um breytingar á frumvarpinu fela að meginstefnu í sér brottfellingu þeirra ákvæða sem í rauninni fela í sér beina innleiðingu ákvæða Evrópugerða sem ekki eru þegar orðnar hluti EES-samningsins. Þess ber þó að gæta við framsetningu tillagnanna að heildarsamhengi fjarskiptalaga verði ekki skert og markmiðum frumvarpsins verði náð eftir því sem fært er í þessu ljósi.

Það er mat nefndarinnar að þrátt fyrir að tíðniréttindi teljist til tímabundinna hagnýtingarréttinda og tíðnihafar njóti þannig ákveðins einkaforræðis yfir þeim komi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ekki í veg fyrir að Alþingi beiti löggjafarvaldinu þeim til takmörkunar. Alþingi hefur frelsi til að hlutast til um fyrirkomulag slíkra réttinda að því tilskildu að jafnræðis og meðalhófs sé gætt. Nefndin telur óumdeilt að ætlunin með frumvarpinu sé að festa í lög heimildir til skerðingar tíðniréttinda þegar slíkt getur talist málefnalegt enda eru stjórnvöld við töku ákvarðana ávallt bundin af lágmarksreglum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar.

Virðulegi forseti. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust um þetta mál voru talsverðar athugasemdir gerðar við það sem ég hef hér fjallað um, þ.e. innleiðingu EES-tilskipana og regluverks EES varðandi það mál sem hér um ræðir, og hefur verið tekið tillit til þess í umfjöllun nefndarinnar eins og þegar hefur komið fram. Helstu breytingar af hálfu nefndarinnar á frumvarpinu snúa að því að fella þau ákvæði út úr frumvarpinu sem ekki hafa þegar tekið gildi.

Að mati eins umsagnaraðila brýtur ákvæði 7. gr. frumvarpsins í bága við meginregluna um að innleiða beri þjóðréttarlegar skuldbindingar í landsrétt eigi þær að hafa réttaráhrif gagnvart borgurum. Hann telur að ekki fái staðist að Póst- og fjarskiptastofnun verði með lagaheimildum fengið vald til þess að ákveða að ákvarðanir alþjóðastofnana verði bindandi hér á landi.

Nefndin bendir á að framangreind meginregla byggist á kenningunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar. Póst- og fjarskiptastofnun verður, a.m.k. hvað tíðnimál varðar, að teljast verulega sérhæfð stofnun. Viðurkennt er að löggjafanum sé heimilt að framselja vald sitt til reglusetningar, m.a. þannig að kveðið sé á um útfærslu með stjórnvaldsfyrirmælum. Í þeim tilvikum þegar setja á reglur og við reglusetninguna reynir ekki á pólitískt mat hefur slíkt framsal verið talið réttlætanlegt. Með því móti hefur verið talið að sérþekking á sérfræðilegum efnum nýtist betur.

Sú athugasemd kom sömuleiðis fram í umsögn um málið að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að ákveðin fyrirtæki sem þurfi að fá tíðniheimildum sínum endurúthlutað á næsta ári greiði á ný eins konar auðlindagjald af því tilefni. Bent var á að slíkt væri í ósamræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefði við nýlegar tíðniúthlutanir þar sem ekkert slíkt gjald hefði verið tekið. Umsagnaraðilinn taldi slíka gjaldtöku því ekki í samræmi við kröfur stjórnarskrárinnar um jafnræði í lagasetningu. Á móti var á það bent að úthlutun tíðniheimildar til símafyrirtækis á síðasta ári án gjaldtöku hafi verið almenn og í þeim málefnalega tilgangi að jafna samkeppnisstöðu þess fyrirtækis gagnvart keppinautum á markaði.

Virðulegi forseti. Það var samstaða í samgöngunefnd um afgreiðslu málsins eins og það liggur hér fyrir rétt eins og það var samstaða í samgöngunefnd við að taka ákveðinn hluta þess úr og gera breytingu á fjarskiptalögum, nr. 81/2003, undir lok síðasta árs. Nefndin er samstiga og sammála um þær breytingartillögur sem gerðar eru og gerð er grein fyrir í nefndarálitinu og fjalla að meginefninu til um það sem ég hef þegar fjallað hér um, þ.e. innleiðingu tilskipana auk þess sem gerð er tillaga um breytingu á heiti áætlunarinnar. Í frumvarpinu er fjallað um samskiptaáætlun en ætti að kallast fjarskiptaáætlun. Er það mat nefndarmanna að það heiti sé mun skýrara og lýsi mun frekar innihaldi þess frumvarps sem hér um ræðir en það heiti á frumvarpinu sem kemur fram í heiti þess.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja frekar þær breytingartillögur sem nefndin gerir við frumvarpið eins og það liggur hér fyrir. Það er gerð ítarleg grein fyrir því í nefndarálitinu sjálfu og um það er eins og ég sagði áðan full samstaða í nefndinni og ástæðulaust að tíunda það hér frekar. Nefndin hefur fjallað ítarlega um þetta mál allt frá því á síðasta hausti, eins og hér hefur komið fram, og kallað til sín fjölmarga gesti og niðurstaða nefndarinnar er nokkuð skýr hvað það varðar.