139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og Lýðheilsustöð, þ.e. sameiningu þeirra tveggja stofnana. Mig langar, í upphafi máls míns, að velta vöngum yfir því sem fram kemur í athugasemdum við 10. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að öllum starfsmönnum þessara stofnana verði boðin störf hjá embætti landlæknis og lýðheilsu. Með ákvæðinu er tryggt að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem þessir starfsmenn verða ráðnir í.“

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst það dálítið sérkennilegt að verið sé að setja inn pósitíft ákvæði til að tryggja að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem verða til hjá nýrri stofnun vegna þess að það tryggir þá ekki jafnt aðgengi annarra en þeirra sem vinna á viðkomandi stofnunum. Ég tel að þetta geti orkað tvímælis.

Þess fyrir utan er gert ráð fyrir að öllum starfsmönnum þessara stofnana verði boðin störf hjá nýju embætti. Það er væntanlega hugsunin til að skapa ró hjá starfsfólki og gera því kleift að reikna með að halda starfinu þó að stofnanirnar verði sameinaðar, vegna þess að svona mál taka oft mjög langan tíma, ég get haft ákveðinn skilning á því, en það sem aftur á móti kemur fram er þetta pósitífa ákvæði í lagafrumvarpinu sjálfu. Ég er dálítið hugsi yfir því hvernig menn ætla að ná fram hagræðingunni af því að sameina stofnanirnar ef ekki á að fækka starfsfólki, nema þá hugsanlega með starfsmannaveltu, þegar fólk hættir sjálfkrafa eða af sjálfsdáðum. Það á ekki að spara í sambandi við húsnæði, jafnvel bruðla þar, ég kem nánar inn á það í ræðunni. Þetta er dálítið sérkennilegt. Líka vegna þess að ef við tökum aðra stofnun, Landspítala – háskólasjúkrahús, sú stofnun fær eins og aðrar stofnanir eðlilegan niðurskurð — við getum deilt um það hvort hann er eðlilegur eða ekki — en farið er í niðurskurð og forstöðumenn þeirrar stofnunar verða að bregðast við. Dugi ekki starfsmannaveltan hjá þeirri stofnun verður forstöðumaður að segja upp starfsfólki. Það er mjög óréttlátt að þegar á að fara að ná hagræðingu fram með sameiningu þá sé sumum stofnunum gert kleift að fara ekki í uppsagnir meðan öðrum er gert það skylt.

Til að rifja það upp sem kom fram við umræður hér í gær og fyrradag er Landspítalinn – háskólasjúkrahús búinn að fækka um 670 manns á árunum 2009 og 2010, og langstærsti hlutinn konur. Mér finnst þetta ekki réttlátt gagnvart þeirri góðu stofnun, fyrir utan það að því til viðbótar búið að fækka um einungis 240 störf í Reykjavík, þannig að búið er að ráða nokkur hundruð manns í störf á sama tíma og verið er að skera niður.

Það sem ég vil þó ræða frekar, og gerði í upphafi þegar þetta mál var lagt fram, ég gagnrýndi það mjög harkalega, er að mér finnst í raun og veru engin breyting hafa orðið á þessum árum miðað við undanfarin ár, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Við erum að ræða um leigu á húsnæði sem er umfram þá þarfagreiningu sem er fyrir stofnunina. Lagt er til og það kemur mjög skýrt fram í texta — mér finnst ákveðinn gagnrýnistónn koma frá fjármálaráðuneytinu, fjármálaskrifstofu ráðuneytisins, um það að gerð er ákveðin þarfagreining fyrir stofnunina af Framkvæmdasýslu ríkisins og í framhaldi af því er farið að bjóða út húsnæðið. Það kemur inn tilboð upp á 29 milljónir á ársgrundvelli. Síðan er það heilbrigðisráðuneytið sjálft sem óskar eftir því að ganga til samninga um húsnæði á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg, sem er miklu stærra eða töluvert stærra en fram kemur í þarfagreiningunni, eða húsrýmisáætlun heitir þetta nú hjá Framkvæmdasýslunni, og leiguverðið er hærra. Samkvæmt þessum grunni er verið að setja 12 milljónir aukalega í húsnæðiskostnað heldur en þörfin er metin fyrir þessa viðkomandi stofnun.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér er þetta næstum því algjörlega óskiljanlegt. Það á að fara að bruðla með peninga í húsnæði. Það er mín skoðun. Í umsögn fjármálaráðuneytisins er einnig bent á að til að mæta þessu bruðli, sem ég kýs að kalla svo, þarf að spara aukalega um 2% hjá nýrri stofnun, bara til að mæta þessari útgjaldaaukningu í húsnæðismálum.

Þá veltir maður því fyrir sér: Hvar verður sá sparnaður? Auðvitað getur hann hvergi annars staðar orðið en hjá starfsfólkinu. Þessu til viðbótar, sem er í raun líka ótrúlegt, eru 17 ár eftir af þeim leigusamningi sem ríkið gerði um húsnæði fyrir landlæknisembættið. Verið er að leigja fermetrann á 2.124 kr. á mánuði og það er kostnaður upp á um 24 milljónir á ári. Það er ekki í hendi, alla vega hefur mér ekki verið tjáð það enn í þessari umræðu, að búið sé að endurleigja þetta húsnæði eða nýta það fyrir aðra starfsemi hjá ríkinu. Ef við gæfum okkur það að ekki væri hægt að endurleigja umrætt húsnæði — því að eins og við vitum er töluvert til af lausu húsnæði á Stór-Reykjavíkursvæðinu og markaðurinn kannski ekki eins erfiður og við þekkjum — þá gæti þessi tala sem ég talaði um áðan, 12 milljónir, sem þegar er verið að bruðla í húsnæðiskostnað, tvöfaldast. Þetta húsnæði mundi standa autt, og kostar 24 milljónir á ári. Þá gætum við hugsanlega staðið uppi með það að setja 36 milljónir aukalega í húsnæðiskostnað.

Ef maður notar þær ábendingar sem koma frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um að skera þurfi frekar niður 2% út af þessum aukakostnaði við húsnæðið, þá gæti það legið fyrir að fyrir árið 2012 þyrfti að skerða nýja stofnun landlæknis og Lýðheilsustöðvar um 6% bara út af húsnæðismálum, sem er jafnvel umfram þá hagræðingarkröfu sem gerð er á heilbrigðisstofnanir.

Ég bara spyr, virðulegi forseti, en ég fæ engin rök fyrir því hvernig á að ná fram þessari hagræðingu. Í fyrsta lagi á ekki að segja upp neinu starfsfólki. Í öðru lagi er verið að setja aukakostnað upp á tugi milljóna í húsnæði. Hvar er í raun og veru sú fullyrðing um að það eigi að nást fram sparnaður? Það hefur ekki verið útskýrt. Ég kallaði mjög eftir því í 1. umr. sem var reyndar fyrir áramótin. Það liggur ekki enn fyrir.

Ég les upp úr meirihlutaáliti frá meiri hlutanum þar sem fram kemur eftirfarandi, með leyfi forseta, ég vitna orðrétt í það:

„Við umfjöllun nefndarinnar var gagnrýnt að ekki hefði farið fram kostnaðargreining um mögulega hagræðingu af sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar var ekki eingöngu horft á mögulegan sparnað af sameiningunni, heldur frekar að sameiningin mundi styrkja starf beggja stofnana og nýja embættið væri betur í stakk búið til að mæta hugsanlegum sparnaðarkröfum í framtíðinni.“

Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að mér finnst þetta alveg hreint með ólíkindum og ekki boðlegt að leggja þetta svona fram í umræðunni núna um sameiningu þessara stofnana. Að sjálfsögðu hefði heilbrigðisnefnd og meiri hluti hennar átt að kalla eftir því hvar þessi hagræðing á nákvæmlega að nást fram. Ekki er sýnt fram á það. Það blasir einhvern veginn við manni að ekki muni takast að ná fram hagræðingu, nema nýja embættið þurfi að bregðast þannig við vegna aukakostnaðar í húsnæðismálum — því að auðvitað verður það að fara að fjárlögum — að segja upp fagfólki og starfsfólki. Annað er ekki hægt, því að ég tel og hlýt að ganga út frá því vísu að þegar sé búið að skera, eins og það hefur oft verið kallað, inn að beini og taka fitulagið út úr öllum stofnunum. Það hlýtur að eiga við þessar stofnanir eins og aðrar.

Áhættan í þessu máli er sú að fara þurfi í frekari uppsagnir á starfsfólki vegna bruðls í húsnæðiskostnaði. Mér er algjörlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að ekki skuli vera gerð krafa til ráðuneytisins. Það er nefnilega heilbrigðisráðuneytið sem fer fram á að bæta við kostnaðinn í húsnæðismálunum. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að ráðuneytið skuli gera það en þurfi síðan ekki að svara þeirri skýru, einföldu spurningu um hvar eigi að ná hagræðingunni fram. Það er bara skilað auðu. Meira að segja eru öfugmælin algjör. Það er algjörlega óboðlegt að leggja þetta svona fram.

Mér finnst þetta vera skýrt dæmi um það, af því erum nú alltaf að tala um að læra af því sem gerst hefur, að við höfum akkúrat ekkert lært. Við erum með skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem segir að í 85% tilfella á sameiningum á stofnunum gengur sameiningin ekki eftir gagnvart þeim markmiðum sem voru sett um hagræðingu, um sparnað. Og hver er aðalástæðan? Hún blasir að sjálfsögðu algjörlega við. Það er vegna þess að undirbúningurinn og markmiðin eru ekki nógu skýr sett fram þegar lagt er af stað. Það er eins og menn ákveði að sameina tvær stofnanir og síðan kemur það í ljós eftir ákveðinn tíma að því miður hafi þetta ekki gengið eftir, en það stefnir jú í eitthvað betra í framhaldinu. Þess vegna hef ég sagt, virðulegi forseti, að það er algjörlega óboðlegt að gera þetta á þennan hátt.

Á sama tíma, sem mér finnst reyndar mjög sárt og af því ég á nú sæti í fjárlaganefnd en ekki heilbrigðisnefnd, erum við að taka á móti fólki sem hefur lent í niðurskurði. Mér er mjög minnisstætt að á síðasta hausti komu tveir forstöðumenn sjúkrastofnana á landsbyggðinni. Þeir lentu í mjög miklum niðurskurði, sérstaklega í fyrri tillögum stjórnarflokkanna — sem betur fer var þeim tillögum hent út á hauga, því að það hefði lagt margar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni í rúst og samfélögin þar af leiðandi — en þessir tveir ágætu forstöðumenn sögðu: Nú er það þannig á stofnunum okkar að við erum búnir að skera niður allt sem við getum, nánast allt. Við erum með konur á launum með niður í 150 þús. kr. á mánuði, sem er svona rétt í kringum upphæð atvinnuleysisbóta. Þær konur eru að sjálfsögðu ekkert síðri og mikilvægari starfsmenn á stofnununum þótt launin séu lægri. Það er búið að skera niður allt sem þetta fólk á að fá og meira að segja þannig að jafnvel er gengið svo langt að menn eru komnir inn á grátt svæði gagnvart kjarasamningum. Ef þessar konur vinna kaffitíma og annað fá þær jafnvel ekki greitt fyrir það. Þannig bregst starfsfólkið við á heilbrigðisstofnunum. Það leggur á sig töluvert meiri vinnu oft og tíðum af því að við vitum að við þennan mikla niðurskurð hefur fólki fækkað mikið. Það er komið alls staðar að þolmörkum. Við höfum heyrt mörg dæmi um það að við erum komin að þolmörkum á mörgum stöðum í því sambandi. En þessar konur leggja mikla vinnu á sig og jafnvel meiri vinnu en þeim ber skylda til samkvæmt kjarasamningum, en samt með þessi laun. Hvað er svo gert? En svo er það bara ekkert vandamál að eyða jafnvel 36 milljónum aukalega í húsnæðiskostnað á þessum tímum. Mér finnst það alveg með eindæmum að þetta skuli vera gert.

Það er dálítið merkilegt, og ég vil beina því til virðulegs forseta, einmitt þegar við erum að ræða sameiningar stofnana, að fyrir rúmum þremur mánuðum lagði ég fram fyrirspurn til að fá upplýsingar um leigusamninginn. Ég gerði það í kjölfar umræðu um þetta mál þegar ég sá að 17 ár voru eftir af samningnum um landlæknisembættið, að það var mjög dýr leiga. Þá fór maður að velta fyrir sér: Getur það verið og það hafi verið þannig í gegnum tíðina hjá ríkisvaldinu að menn geri samninga bara út og suður? Það virðist vera staðreyndin. Menn hafa verið að gera samninga og við höfum verið að fjalla um samninga sem eru tengdir við erlendan gjaldeyri, þ.e. gengistryggða leigusamninga. Ég óskaði eftir því að fá upplýsingar úr öllum ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra, um leigusamninga sem væru í gildi hjá ráðuneytunum. Það eru liðnir þrír mánuðir síðan ég óskaði eftir þeim upplýsingum, skriflegu svari, og samkvæmt þingskapalögum á að svara því innan tíu daga. Ekki er enn komið svar. Ég tel að margt þurfi að skoða betur og það sé jafnvel ekki nægjanleg yfirsýn yfir það húsnæði sem ríkið er með á leigu og menn skoði þetta allt of einangrað og allt of þröngt þegar verið er að meta þetta.

Hvernig stendur t.d. á því í allri þeirri tækni sem við lifum í að þegar menn eru að ganga eftir því hvernig sparnaðurinn eigi að vera verður oft fátt um svör, eins og ég benti á réttilega í umfjöllun um þetta mál? Þá er það símsvörun, skúringar og eitthvað svoleiðis sem skiptir auðvitað máli. Mér er samt algjörlega óskiljanlegt af hverju þarf að skipta um húsnæði þótt verið sé að sameina tvær stofnanir, sérstaklega í ljósi þess, eins og í þessu tilfelli, þegar 17 ár eru eftir af samningstímanum. Eins og símsvörun geti ekki verið á einum stað. Það er í mörgum fyrirtækjum þannig. Það eru meira að segja dæmi um að opinberar stofnanir eru þegar búnar að fá einkafyrirtæki sem sjá um símavörsluna, bjóða út það verkefni. Það verður enginn var við það þegar hringt er í viðkomandi stofnun að það sé einhver kona sem vinnur hjá öðru fyrirtæki sem svarar í símann. Mér er því óskiljanlegt með allri þeirri tækni sem hefur orðið og öllum þessum framförum af hverju fara þurfi þessa leið hér. Sérstaklega þegar ríkið situr uppi með samning sem kostar 24 milljónir á ári. Það er ekki í hendi að hægt sé að koma því húsnæði til leigu og það gæti lent á ríkinu að greiða aukalega 12 milljónir.

Þar fyrir utan er talað um að kostnaðurinn við sameininguna vegna flutnings nýs húsnæðis o.s.frv., auðvitað kostar það peninga, sé áætlaður um 30 milljónir. Ef maður leggur þetta saman inn á fyrsta starfsár stofnunarinnar erum við komin með 66 milljónir í kostnað við sameininguna, sem er í kringum 10% af framlögum til stofnunarinnar. Samt ætla menn að ná hagræðingu og sparnaði. Þetta er algjörlega óskiljanlegt.

Ég er mjög óánægður með að heilbrigðisnefnd hafi ekki krafið heilbrigðisráðuneytið um skýr svör við því hvernig þessi hagræðing eigi að skila sér og þeirri fullyrðingu um að fjárhagsleg hagræðing muni nást fram með því að sameina stofnanirnar. Mér finnst þeirri spurningu vera algjörlega ósvarað.

Ég vænti þess og treysti á það að á milli 2. og 3. umr. muni heilbrigðisnefnd fara yfir og skoða þetta betur. Það er ekki boðlegt að menn fari fram með svona áætlun sem ekki er búið að færa nægilega efnisleg rök fyrir að geti gengið eftir á sama tíma og verið er að skera mjög mikið niður, til að mynda á heilbrigðisstofnunum sem er mjög sársaukafullt og er jafnsársaukafullt fyrir okkur sem þurfum að standa að því. Því er mér algjörlega óskiljanlegt af hverju málið er keyrt fram á þennan hátt eins og gert er. Því að hér er einmitt dæmi að mínu viti í uppsiglingu sem búið er að vara okkur við oft og tíðum, að fara ekki í sameiningar á stofnunum með væntingar um fjárhagslega hagræðingu og sparnað án þess að undirbúa málið nógu vel. Ég hræðist það mjög, virðulegi forseti, að það sé einmitt að gerast núna.