139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

Alþjóðaþingmannasambandið 2010.

571. mál
[15:02]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2010.

Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2010 voru nokkur atriði sem Íslandsdeild þykir hafa sett einna mestan svip á starfsemi sambandsins árið 2010.

Í fyrsta lagi var umræða um náttúruhamfarir og viðbragðsáætlanir við þeim áberandi á árinu og fór fram utandagskrárumræða um efnið bæði á vor- og haustþingi sambandsins. Fyrri umræðan lagði áherslu á hvernig styrkja mætti samstöðu alþjóðasamfélagsins með íbúum Haítí og Síle í kjölfar jarðskjálftanna sem riðu yfir löndin á árinu, með áherslu á forvarnir, bætt áhættumat, björgun og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara. Sú síðari tók á því hvernig styðja mætti við neyðarviðbrögð alþjóðasamfélagsins við náttúruhamförum.

Í öðru lagi var fyrirferðarmikil umræða á árinu um þær grundvallarbreytingar að Alþjóðaþingmannasambandið fái stöðu alþjóðasamtaka með fullgildingu milliríkjasamnings sem samþykktur er af ríkisstjórnum aðildarríkjanna og fullgiltur af þingunum. Rætt var um að þar sem Alþjóðaþingmannasambandið er ekki byggt á alþjóðasamningi verði sambandið alltaf í tvíbentri stöðu sem viðurkenndur þátttakandi á alþjóðavettvangi og ekki með stöðu alþjóðastofnunar. Forseti Alþjóðaþingmannasambandsins lagði því til að skoðað yrði að breyta núgildandi fyrirkomulagi með því að bjóða aðildarríkjum sambandsins að fullgilda alþjóðasamning sem veita mun sambandinu lagalega stöðu alþjóðastofnunar. Í því samhengi var sjónum m.a. beint að framtíðarsýn Alþjóðaþingmannasambandsins þar sem sambandið starfaði sem alþjóðlegur þingmannavettvangur Sameinuðu þjóðanna. Skiptar skoðanir eru meðal aðildarríkjanna um tillögur að grundvallarbreytingum á sambandinu og mun sú umræða halda áfram um þær tillögur og hvort og þá hvernig standa eigi að þeim.

Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins árið 2010 má nefna baráttuna gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu, þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn kosningasvindli. Enn fremur var rætt um hvernig tryggja mætti sanngjörn valdaskipti, sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og gagnsæi og traust stjórnmálaflokka.

Þá ber að nefna mikilvægt starf Alþjóðaþingmannasambandsins til að efla lýðræði, en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Námskeið og ráðstefnur eru haldnar fyrir þing sem eru að feta sig áfram á lýðræðisbraut um ýmsa þætti þingstarfsins, oft í samvinnu við viðeigandi stofnun Sameinuðu þjóðanna eða aðrar alþjóðastofnanir.

Nú eiga 155 þjóðþing aðild að Alþjóðaþingmannasambandinu og níu svæðisbundin þingmannasamtök eiga aukaaðild að sambandinu. Markmið sambandsins er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur sambandið að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.

Alþjóðaþingmannasambandið heldur tvö þing á ári, eitt stærra þing að vori í einu af aðildarríkjum sambandsins og eitt minna þing að hausti sem er haldið í Genf.

Þrjár fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins en þær eru:

1. nefnd um friðar- og öryggismál,

2. nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,

3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál.

Ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum sambandsins og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum sambandsins, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

Innan sambandsins er norrænt samstarf en tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlönd skiptast á að fara með stjórn norræna hópsins og voru Danir í forustu á árinu. Fyrri fundurinn var haldinn í Viborg 20. mars og sá síðari í Kaupmannahöfn 28. september 2010. Fulltrúi okkar í framkvæmdastjórn Alþjóðaþingmannasambandsins er Krister Örnfjäder. Gerir hann fulltrúum norræna þingmannasambandsins grein fyrir störfum framkvæmdastjórnarinnar og fer yfir þau málefni sem eru efst á baugi.

Á síðasta norræna fundi var farið yfir hugmyndir um breytingu á starfi eða stöðu Alþjóðaþingmannasambandsins, um hvort sambandið eigi að vera eins og það er í dag eða hvort það eigi að fá stöðu alþjóðasamtaka eða sambærilega stöðu og Sameinuðu þjóðirnar. Var töluvert rætt um hugsanlegar breytingar á þeim fundi, hvaða kostir og hvaða gallar væru á því og hvað væri raunhæft. Eins var rætt um hlutverk Alþjóðaþingmannasambandsins til að stuðla að framþróun lýðræðis í aðildarríkjum þess, en norrænu nefndarmennirnir voru sammála um að þeir væru ekki tilbúnir að breyta grundvallarstoðum sambandsins á kostnað grundvallarhlutverks þess.

Á norrænu fundunum er farið yfir efni fyrirliggjandi þinga og skipað í nefndir. Eru þeir fundir gagnlegir, ekki síst fyrir okkur fulltrúana frá Norðurlöndunum til að spegla sýn okkar á alþjóðleg mál. Þetta er einn liður af mörgum í norræna samstarfinu sem ég tel að komi okkur ekki síst til góða, hann opnar nýjar gáttir, nýja sýn, og er mikilvægur í starfi okkar.

Vorþingin hafa undanfarið verið haldin í páskavikunni, í dymbilviku, og hefur komið fram hugmynd um að breyta þeirri tímasetningu. Að öllum líkindum verða þingin þó áfram haldin á þessum tíma, síðustu daga fyrir páska, og skarast því að litlu leyti við þingstörfin á hinu háttvirta Alþingi.

Síðasta vorþing, 122. þing, var haldið í Bangkok 5.–10. mars fyrir ári síðan og af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu fundinn sú sem hér stendur, Guðbjartur Hannesson og Einar K. Guðfinnsson auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá þess þings voru baráttan gegn mansali, skipulögðum glæpum, smygli á eiturlyfjum og ólöglegri vopnasölu, þátttaka æskunnar í uppbyggingu lýðræðis og þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á þróunaraðstoð og samstarf ríkja. Það eru viðamikil málefni sem farið er yfir. Þau eru rædd hvert í sinni nefnd og höfum við fulltrúarnir þrír — það eru þrír fulltrúar frá hverju landi sem sækja þessi þing — skipt okkur niður á nefndirnar og verið virkir þátttakendur í umræðum á viðkomandi sviði.

Þess má geta að starfandi er sérstök nefnd innan Alþjóðaþingmannasambandsins um mannréttindi þingmanna sem fær ábendingar um hugsanleg mannréttindabrot gegn þingmönnum. Það er nefnd sem vinnur mjög ötullega og fylgist mjög vel með og gefur skýrslu á hverju þingi. Á síðasta þingi kynnti þessi mannréttindanefnd brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráð Alþjóðaþingmannasambandsins fjölmargar ályktanir á grundvelli þeirra. Formaður nefndarinnar sagði nefndina hafa til skoðunar mál 293 löggjafa, þar af opinber mál 32 þingmanna í 21 landi. Þess má geta að þetta er sú nefnd sem fengið hefur til umfjöllunar og skoðunar mál hv. þm. Birgittu Jónsdóttur vegna kröfu bandarískra stjórnvalda um að fá aðgang að persónulegum tölvupósti. Við fáum vonandi einhverjar fréttir á komandi vorþingi sem haldið verður í næsta mánuði af rannsókn og skoðun nefndarinnar á máli Birgittu Jónsdóttur.

Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í þessa skýrslu en dagskráin er mjög stíf á þessum þingum, frá morgni til kvölds, og fjölmargar ályktanir gerðar. Helstu ályktanir Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2010 voru um eftirfarandi efni:

1. Að stuðla að samvinnu og sameiginlegri ábyrgð í baráttunni gegn skipulögðum glæpum, með áherslu á smygl á eiturlyfjum, ólöglega vopnasölu, mansal og hryðjuverk sem ná yfir landamæri.

2. Hlutverk þjóðþinga við framþróun svokallaðs „suður suður“ samstarfs ríkja með það að leiðarljósi að flýta fyrir því að þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna verði náð.

3. Þátttöku æskunnar í uppbyggingu lýðræðis.

4. Hlutverk þjóðþinga við að styrkja samstöðu alþjóðasamfélagsins með íbúum Haítí og Síle í kjölfar jarðskjálftanna sem riðu yfir löndin, með áherslu á forvarnir, bætt áhættumat, björgun og stjórnun í kjölfar náttúruhamfara.

Það er augljóst að þær miklu hörmungar, jarðskjálftar og slys sem nú ríða yfir Japan koma örugglega til umræðu á þingi Alþjóðaþingmannasambandsins á vorþinginu og viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeim náttúruhamförum.

Undir þessa skýrslu skrifa sú sem hér stendur og er formaður, Einar K. Guðfinnsson varaformaður og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ég vil að lokum þakka gott samstarf við félaga í Alþjóðaþingmannasambandinu. Sérstaklega þakka ég ritara nefndarinnar, Örnu Bang, fyrir mikla lipurð, fagleg vinnubrögð og jafnframt fyrir góðan stuðning við nefndina hvort sem er í löngum og erfiðum ferðum eða í faglegu starfi í nefndinni almennt.