139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hygg að það sé ómaklegt að bera það á hæstv. utanríkisráðherra að hann hafi fagnað atburðum gærdagsins. Ég hef ekki heyrt hann gera það, það sem ég hef heyrt eftir honum haft í þessum efnum. (Gripið fram í.) Hann hefur hins vegar tekið það fram sem sína skoðun að hann telji að stjórnarsamstarfið standi eftir sem áður sterkum fótum, og það gerir það. Ég get glatt hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson og aðra sem kunna að hafa haft af þessu áhyggjur að þess þarf ekki. Það er okkar eindregni ásetningur að láta þetta ekki slá okkur út af laginu og halda ótrauð áfram okkar vinnu.

Hitt er alveg ljóst, og það höfum við sagt í sameiginlegri yfirlýsingu, að úrsögn þeirra félaga okkar var okkur hinum félögum þeirra mikil vonbrigði. Því er ekkert að leyna og það held ég að allir hljóti að skilja, það er erfitt þegar leiðir skilur með þessum hætti og við reynum ekkert að fela það að okkur voru það vonbrigði að þau skyldu taka þá ákvörðun sem þau gerðu í gær.

Menn bera ábyrgð gagnvart ýmsum hlutum og þar á meðal því sem þeir taka að sér og það stendur ekki til að hlaupast undan henni. Það er að nást heilmikill árangur þó að mér finnist stundum að hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og jafnvel fleiri, mætti horfa raunsærri augum á það. Það er engu að síður þannig að ef við berum saman stöðu Íslands í dag við það sem spáð var á fyrstu mánuðum ársins 2009 er himinn og haf á milli þess hvað við stöndum betur í dag með minni heildarskuldir, minni opinberar skuldir, minni halla á ríkissjóði (Gripið fram í: Er það …?) og meiri stöðugleika í efnahagslífinu — og 2–3% minna atvinnuleysi en þá var spáð að yrði. (Gripið fram í.) Það er veruleikinn. (Gripið fram í.) Eftir sem áður er atvinnuleysið tilfinnanlegt og eitt okkar mesta böl og það þarf að sameina kraftana hér um að takast á við það og gera allt sem hægt er til að ná því hratt niður. Um það er heldur engin deila. (Gripið fram í: Nei.) Það er kannski helst að deilt sé um það hvort til séu einhver ókeypis töfrabrögð í þeim efnum því að þannig er það ekki. Þetta er þrotlaust strit og púl, (Forseti hringir.) erfið vinna, flórmokstur sem við höfum verið í til að skapa grunninn hér síðan að nýju og betra samfélagi. (Forseti hringir.) Og nú hlæja ýmsir í salnum og finnst það fyndið. Það eru þeir sem lögðu til mykjuna í flórinn. [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Þeir geta líka tekið að sér að moka flórinn.)