139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér verulega á óvart þegar sú leið sem við ræðum hér, þessi stjórnlagaráðsleið, skaut aftur upp kollinum. Ég taldi að hún hefði verið slegin út af borðinu, einfaldlega vegna þess að í upphafi, þegar þessar hugmyndir voru nefndar, komu fram ýmsir lögspekingar, eins og hv. þingmaður nefndi, og bentu á gallana við hana.

Allt í einu skýtur hún svo aftur upp kollinum, að því er virðist vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hafi krafist þess. Hún treystir sér hins vegar ekki, að því er virðist, til að leggja málið fram sjálf heldur fær til þess aðra þingmenn. Hún setur þingmennina í nefndinni sem falið var að yfirfara málið í mjög erfiða stöðu. Þeim þingmönnum sem telja mjög mikilvægt að ná fram veigamiklum breytingum á stjórnarskránni er einfaldlega sagt: Samþykkið þetta eða þið fáið ekki neitt.

Þetta þykja mér dálítið óheppileg vinnubrögð af hálfu hæstv. forsætisráðherra. Er hv. þingmaður sammála mér um það? En þetta er þó sérstaklega óheppilegt í ljósi þess að um hæstv. forsætisráðherra er að ræða og þá má ekki vera neinn efi þegar stjórnarskráin er annars vegar. Menn benda á, lögspekingar, að hugsanlega sé verið að fara á svig við stjórnarskrána og það fyrir tilstilli hæstv. forsætisráðherra. Er það ekki áhyggjuefni?

Þetta hlýtur að vera áhyggjuefni, ekki síst í ljósi sögunnar. Og það er alltaf að bætast við þá sögu. Í kvöld sáum við í fréttum að úrskurðað hefur verið að hæstv. forsætisráðherra hafi brotið jafnréttislög aftur. Hæstv. forsætisráðherra er orðinn síbrotamaður þegar kemur að jafnréttislögum og er að tefla (Forseti hringir.) í tvísýnu hvað varðar stjórnarskrána. (Forseti hringir.) Hvað finnst hv. þingmanni um þetta?