139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta þingmál hefur það staðið upp úr af hálfu þeirra sem eru andsnúnir málinu að það þykir sniðganga við niðurstöðu Hæstaréttar. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar.

Það er tvennt annað sem skiptir hér líka miklu máli, í fyrsta lagi það að málið er fullkominn óþarfi. Það er óþarfi að leita ráðgjafar 25 einstaklinga með þeim hætti sem hér stendur til. Við höfum allt í hendi okkar (Gripið fram í.) sem við þurfum til að hefja endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta er mjög kostnaðarsamt, við skulum líka hafa það í huga. (Gripið fram í.)

Hitt atriðið er þetta, og ég vil að það komi mjög skýrt fram við þessa atkvæðagreiðslu, að sama hvað kemur út úr þessu stjórnlagaráði er það óbindandi fyrir þingið. (Gripið fram í.) Ég lýsi mig fullkomlega óskuldbundinn af þeirri niðurstöðu sem kemur úr vinnunni fram undan. Við munum vilja skoða (Forseti hringir.) og nýta það sem við erum sammála og vel er gert en það sem ég verð ósammála skuldbindur mig á engan hátt og jafnvel þótt stjórnlagaráðið sendi málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: … þjóðina?) (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)