139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka bæði hæstv. forseta og ekki síður hæstv. forsætisráðherra fyrir að bregðast við ákalli héðan og gefa skýrslu um þetta erfiða mál sem snýst um það að ráðherrar fari að lögum, ekki eftir faglegu mati heldur að lögum og eftir þeim úrskurðum sem þeim tengjast.

Hæstv. forsætisráðherra hefur átt merka sögu í pólitík. Fáir ef nokkrir hafa haft jafnmikil áhrif á mótun jafnréttislöggjafarinnar síðustu áratugi ef svo má segja. Stór orð hafa vissulega fallið í gegnum tíðina, við þekkjum þau vel og ég ætla ekkert að endurtaka þau. En ég hlýt að spyrja mig eftir að hafa hlustað á þau stóru orð í gegnum tíðina og fundið fyrir viðbrögðum forsætisráðherra hvort ekki hafi áreiðanlega búið þar að baki raunverulegur vilji til að gera málaflokkinn betri, að ekki hafi búið að baki pólitískur leikur, einhver sýndarmennska eða stundarhagsmunir. Ég geri ráð fyrir því í ljósi sögunnar að hæstv. forsætisráðherra hafi þar sýnt hinn raunverulega vilja til þess að stuðla að framgangi og eflingu jafnréttismála í landinu en ekki verið í einhverjum pólitískum skollaleik. Þetta er nefnilega alvörumál.

Þegar maður er í ríkisstjórn er það ekki bara til að taka við klappinu á bakið, heldur þýðir það líka að við þurfum að taka við þeim höggum, kjaftshöggum eins og forsætisráðherra lendir núna í, og taka þeim og bregðast við af sóma.

Það var talað um að við mættum ekki tala um að það væri afturkippur í jafnréttismálum. Ég fullyrði að svo er, það þýðir ekki bara að benda á jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórn. Hvað erum við t.d. að upplifa í leik- og grunnskólamálum vítt og breitt, m.a. hér í borginni? Hvernig upplifum við hina kynjuðu hagstjórn? Hún var brandari þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. 540 manns hefur verið sagt upp hjá hinu opinbera, þar af 470 konum, 70 karlmönnum.

Á fæðingarorlofið, mikilvægasta jafnréttistæki síðari tíma, hefur verið ráðist þrisvar sinnum. Ríkisstjórnin kann ekki mikið að skera niður en hún kunni þó að skera niður fæðingarorlofið. (Gripið fram í.)

Þetta eru jafnréttismálin í hnotskurn hjá ríkisstjórninni og þess vegna segi ég: Það er afturkippur í jafnréttismálum á Íslandi og þess vegna undrast ég fyrstu viðbrögð forsætisráðherra, að þau skuli hafa verið með þeim hætti sem raunin varð. Ég vil hins vegar reyna að líta bjartari augum til framtíðar og vona að menn taki af alvöru á þessu máli og sýni fram á að viðbrögðin mega ekki snúast um það hvort ríkisstjórnin lifir eða deyr. Viðbrögðin mega ekki snúast um það hvernig lífi forsætisráðherra vindur fram í stóli forsætisráðherra, viðbrögðin mega ekki vera þannig. Viðbrögðin verða að snúast um það hvernig við getum eflt jafnréttismálin, að gera rétt í málinu, fara eftir lögum. Þess vegna hljótum við að spyrja og ítreka þá spurningu: Ætlar hæstv. forsætisráðherra að borga skaðabætur eða ætlar hún að halda áfram með málið og fara með það fyrir dómstóla?

Það er skýlaus krafa okkar hér að það verði farið eftir úrskurði og hann virtur afdráttarlaust, að menn fari ekki í það sem mér fannst því miður fyrstu viðbrögð forsætisráðherra vera, þ.e. að tala jafnréttismálin niður en ekki upp. Þau eru töluð niður þegar bornar eru brigður á hæfi þeirra sem eru í kærunefnd jafnréttismála, það eru bornar brigður á hæfi þeirra með því að tala þennan úrskurð niður. Það þýðir ekki að koma hér enn og aftur og reyna að fela sig á bak við ráðuneytisstjórann í forsætisráðuneytinu eða ráðgjafa úti í bæ. Forsætisráðherra ber einfaldlega pólitíska og lagalega ábyrgð á ráðningu embættismanna. Þetta er einfalt og þetta er skýrt og þetta er eftir lögum.

Þess vegna fer ég fram á það við hæstv. forsætisráðherra, ötulan baráttumann jafnréttismála í gegnum tíðina, að viðbrögð hennar mótist (Forseti hringir.) af jafnréttismálum, af lögum en ekki pólitískri framtíð, sinnar eigin eða ríkisstjórnar.