139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Brýnasta verkefni fram undan er að ná niður atvinnuleysi og auka kaupmátt í landinu og í þeim efnum stöndum við á nokkrum tímamótum um þessar mundir, ekki síst vegna yfirstandandi kjaraviðræðna og fyrirhugaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins í þessum efnum er að skapa þannig efnahags- og rekstrarumhverfi að atvinnulífið nýti tækifærin sem sannarlega eru til staðar hér á landi.

Enginn maður getur með sanngirni andmælt því að ríkisstjórnin hefur náð miklum árangri í efnahags- og atvinnumálum allt frá hruni við afar erfiðar aðstæður. Það eru aðeins liðin rúm tvö ár frá því að gjaldmiðill landsins hrundi, nánast allt bankakerfið féll saman, grundvöllur ríkisfjármála hrundi, heimili og fyrirtæki læstust í skuldafangelsi og samfélagið rambaði á barmi upplausnar. Engum datt í hug að hægt væri að leysa úr þeim ósköpum sem ríkisstjórnararfleifð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skildi eftir sig á einu til (Gripið fram í.) tveimur árum. Slíkt hefur aldrei verið í kortunum og því ósanngjarnt að ræða málin með þeim hætti.

Frá því ríkisstjórnin tók við hafa stýrivextir lækkað um 14% og hafa aldrei verið lægri. Verðbólgan hefur lækkað um rúm 16% og er nú undir 2% og hefur ekki verið lægri í rúm 7 ár. Gengið hefur styrkst og helst nú stöðugt að mestu. Fjárlagahallinn hefur minnkað úr rúmum 200 milljörðum í tæpa 40 milljarða. Skuldastaða þjóðarbúsins og ríkisins er mun betri en reiknað var með. Afgangur af viðskiptum við útlönd hefur aldrei verið meiri. Viðunandi gjaldeyrisforði hefur verið tryggður. Skuldatryggingarálag hefur lækkað úr rúmum 1.400 punktum þegar það var hæst í 250–270 punkta.

Málshefjanda hefur orðið tíðrætt um hagvöxtinn, ekki síst vonbrigði, sem má taka undir, með síðustu bráðabirgðatölur Hagstofunnar. En um leið og ég tek undir þau vonbrigði sem hafa komið fram varðandi það, bið ég menn lengstra orða að gera ekki of mikið úr þessum bráðabirgðatölum og mála ekki skrattann á vegginn sterkari litum en tilefni er til. Um þessar tölur Hagstofunnar hefur Seðlabankinn sagt að þær gefi misvísandi vísbendingar og margir undirliggjandi þættir hagkerfisins bendi til þess að krafturinn þar sé meiri en bráðabirgðatölur Hagstofunnar gefa tilefni til að ætla. Því telur Seðlabankinn ekki tilefni til að breyta fyrri spá sinni um að hagvöxtur verði um 3% í ár. Í morgun birti ASÍ endurskoðaða spá sína og þar gætir sambærilegrar bjartsýni og hjá Seðlabankanum, en nú spá þeir 2,5% hagvexti í stað 1,7% áður og telja að nú sé viðsnúningur í íslensku efnahagslífi.

Þó að um allt þetta sé ákveðin óvissa er mikilvægt að við höldum þessum sjónarmiðum til haga, ekki síður en þeim varnaðarmerkjum sem lesa má úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Bráðabirgðatölur Hagstofunnar benda til að fjárfesting í fyrra hafi verið um 13% af landsframleiðslu, en við verðum einnig að hafa í huga að varasamt er að bera saman fjárfestingar áranna fyrir hrun og undanfarin tvö ár, enda var mikið af þeirri fjárfestingu bólufjárfesting sem lítil innstæða var fyrir. Eina raunverulega aukningin í fjárfestingu á undangengnum árum var í virkjunum og orkufrekum iðnaði. En náist skynsamlegir kjarasamningar til þriggja ára á næstunni er mikilvægum áfanga náð í átt að traustari efnahagsumgjörð til næstu ára. Viðræður hafa átt sér stað við aðila vinnumarkaðarins einkum um aðalmálið sem er atvinnuuppbyggingin sannarlega og einnig hefur verið rætt um skattamál fyrirtækja og einstaklinga, vinnumarkaðsúrræði, menntamál, starfsendurhæfingu, húsnæðismál og áætlun um að losa gjaldeyrishöftin.

Ríkisstjórnin hefur í smíðum efnahagsáætlun um afnám gjaldeyrishafta og áætlun um fjárfestingar á fjölmörgum sviðum sem leiða munu til fjölgunar starfa og auka hagvöxt. Stefnt er að því að fjárfestingin gæti orðið um 18% af landsframleiðslu innan fárra ára.

Meðal þess sem greiðir leið að aukinni fjárfestingu og fjölgun starfa er lækkun tryggingagjalds. Eins og ég hef áður sagt skiptir miklu að lækka tryggingagjaldið sem er íþyngjandi fyrir framsækin og vinnuaflsfrek fyrirtæki. Ég minni í þessu sambandi á að hækkun tryggingagjalds var sú leið sem aðilar vinnumarkaðarins lögðu til á sínum tíma. En auðvitað þarf að tryggja ríkissjóði tekjur á móti verði tryggingagjaldið lækkað. Ég hef bent á auðlindaskatt og skatt á bankakerfið og tryggingafélögin.

Virðulegi forseti. Við þurfum að nýta þann nýsköpunarkraft sem með þjóðinni býr og byggja upp fjölbreytt atvinnulíf. Ég nefni í því sambandi nýgerðan samning um klasasamstarf á sviði orku-, mennta- og heilbrigðismála. Ég nefni einnig átak sem miðar að því að fjölga ferðamönnum um 50.000 og skapa að minnsta kosti 1.000 varanleg störf í ferðaþjónustu. Það eru mikil tækifæri til í skapandi greinum og brátt sér dagsins ljós áætlun um eflingu græna hagkerfisins þar sem ný og sjálfbær störf verða í forgrunni.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að ákvarðanir um virkjanir og raforkusamninga verði teknar á viðskiptalegum grundvelli að teknu tilliti til rammaáætlunarinnar sem ég legg áherslu á að verði lokið sem fyrst. Ég nefni sérstaklega uppbygginguna í Helguvík og í Þingeyjarsýslu, en í hvorugu þessara verkefna stendur á ríkisstjórninni.

Stór verkefni eru ófjármögnuð og í biðstöðu. Landsvirkjun hefur ekki enn fjármagnað Búðarhálsvirkjun að fullu þó að mikilvægir lánasamningar við Norræna fjárfestingarbankann og Evrópska þróunarbankann séu nú í höfn og þeir samningar hvíla á því að lausn fáist í Icesave-málinu í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hefjast senn, en fjárfestingin er upp á 26 milljarða kr. Stækkun álversins í Straumsvík er upp á 57 milljarða kr. og kísilver í Helguvík 18 milljarðar kr. Samtals eru þetta fjárfestingar fyrir um og yfir 100 milljarða og 1.600–1.700 ársverk.

Gjaldeyrishöftin hafa haft neikvæð áhrif á þessi verkefni, þau standa fjármögnun atvinnuuppbyggingar fyrir þrifum. Við höftin þurfum við hins vegar að lifa í einhvern tíma og ekki síst meðan Icesave er óleyst og óvissa grúfir yfir efnahagslífinu vegna gengismála. Á næstu dögum verður lögð fram áætlun um losun hafta, en samhliða losun haftanna verður að móta nýja peningastefnu og stefnu í gjaldmiðilsmálum landsins til framtíðar. Þetta verður að gera hvort sem menn taka undir framtíðarsýn mína og míns flokks um aðild að ESB með upptöku evru eða ekki. Það stendur ekki síst upp á þá sem halda vilja krónunni að skýra framtíðarsýn sína í þessum málum. Það skiptir miklu máli fyrir atvinnuuppbygginguna í landinu.

Virðulegi forseti. Atvinnuleysið er sannarlega þjóðarböl og þyngra en tárum taki að þúsundir einstaklinga fái ekki vinnu við hæfi. Verkefnið nú er að snúa taflinu við og virkja þann mannauð sem í þjóðinni býr. Til að svo geti orðið verður atvinnulífið að taka hraustlega við sér og fjárfestingar verða að vaxa á ný.

Við erum að vinna mjög markvissa og góða áætlun um ýmis vinnumarkaðsverkefni sem taka á því að koma fólki sem er atvinnulaust í nám og fleiri þættir eru í undirbúningi sem munu skipta verulega máli til þess að draga úr atvinnuleysi, fyrir utan þau stóru verkefni sem ég nefndi hér áðan. Allt skiptir þetta máli og ætti að auka á bjartsýni. Með nýjum langtímakjarasamningi, jákvæðri niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og markvissum áætlunum um fjárfestingar og afnám gjaldeyrishafta verður lagður mikilvægur grunnur að stöðugleika í samfélaginu og grundvöllur til sóknar í atvinnumálum. Gangi þetta eftir eru íslenskri þjóð allir vegir færir og framtíðin björt.