139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar við mótum atvinnu- og efnahagsstefnu til framtíðar er undirstöðuatriði að við byggjum á þekkingu og nýsköpun og vissulega hefur til að mynda verið skorið niður í hinu opinbera menntakerfi á undanförnum tveimur árum vegna efnahagslegra örðugleika en ég tel það líka lykilatriði að við lítum núna til þess hvernig við getum eflt menntakerfið, fjölgað tækifærum, fjölgað þeim sem ljúka formlegri framhaldsmenntun og dregið úr bilinu milli þeirra sem eingöngu hafa lokið grunnmenntun og svo langskólagenginna. Þar eru óteljandi tækifæri því að aukin menntun mun skila sér í fjölbreyttari tækifærum í atvinnumálum. Þar höfum við fjöldamörg dæmi og reynslu sem við getum lært af erlendis. Atvinnustefna til framtíðar byggir á fjölbreytni, þ.e. í því um hvaða störf fólk getur valið. Um þetta held ég að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld séu sammála, að menntamálin séu þar lykilatriði.

Þegar ég tala um fjölbreytni get ég til að mynda nefnt sem dæmi hinar skapandi greinar sem aldrei komust til tals í umræðunni um atvinnumál hér þangað til skyndilega var lögð til kortlagning sem sýndi að þetta var einn af stærstu atvinnuvegum þjóðarinnar með 190 milljarða veltu. Ekki kemur sú velta frá ríkinu, kannski koma 22 milljarðar frá opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, en hitt byggist á tækifærum sem einstaklingarnir hafa skapað sér, m.a. í krafti menntunar sinnar og sýnar.

Hitt atriðið sem mig langar til að nefna í þessari umræðu er að auðvitað er nauðsyn að við byggjum framtíðarsýn okkar á fjölbreyttum mælikvarða. Þá horfi ég til þess að það er mikilvægt að horfa til hagvaxtar. Það er líka mikilvægt að við lítum til samfélagslegra mælikvarða og umhverfismælikvarða. Það er líka sama hvert við lítum á alþjóðlegum vettvangi, hvort við horfum til OECD, Evrópusambandsins, annarra Evrópuríkja eða vestur um haf, í þessa átt eru öll ríki að færa sig þar sem þau nýta fjölbreyttari mælikvarða til að meta samfélagsþróun en eingöngu hagvöxtinn, meta afleiðingar þess hvernig atvinnulíf við byggjum upp, hvaða afleiðingar það hefur á samfélag og umhverfi.

Ég var á alþjóðlegri ráðstefnu um PISA-könnunina sem hefur ekki mikið verið rædd í þessum sal hingað til en þar sýndum við Íslendingar talsverðar framfarir þegar niðurstöður voru kynntar í desember. Þar var sérfræðingur, virtur hagfræðingur nota bene — á íslensku leggst það út: takið eftir — sem hélt því fram að PISA-könnunin væri líklega betri efnahagslegur mælikvarði en margir þeir mælikvarðar sem við notum í dag, þ.e. hún hefði meira forspárgildi um það hvernig þjóðum ætti eftir að vegna í framtíðinni en hinir hefðbundnu efnahagslegu mælikvarðar því að hún sýndi fram á framfarir í menntamálum. Þá getum við verið nokkuð bjartsýn miðað við að þar fór okkur a.m.k. fram og við stefnum á að gera það áfram.

Ég minni líka á að í okkar norræna samstarfi er nákvæmlega þessi hugsun. Forsætisráðherrarnir eru að fara að ræða tillögur um grænan vöxt. Hann byggir nákvæmlega á þessum þremur þáttum; efnahagslegri velferð, samfélagslegri velferð og umhverfisþáttum. (Forseti hringir.) Þannig eigum við að byggja okkar atvinnu- og efnahagsstefnu til framtíðar. Þar höfum við mikil tækifæri við mótun nýrrar efnahagsstefnu.