139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið áréttað mikilvægi þess að hagvöxtur aukist til þess að draga úr atvinnuleysi og bæta kjör landsmanna. Hlutverk hagstjórnar hlýtur að vera að hámarka velferð íbúa landsins og í því felst m.a. að stuðla að eins miklum hagvexti og vöxtur framleiðslugetu þjóðarbúsins leyfir. Hagvöxtur og vöxtur atvinnu er þá eins mikill og kostur er án þess að efnahagslegt jafnvægi raskist sem birtist m.a. í aukinni verðbólgu. Sannarlega eru aðgerðir sem stuðla að þessu í forgangi hjá stjórnvöldum og líta þarf þar bæði til lengri og skemmri tíma. Aðstæður eru þó þannig að ástæða er til að hvetja til hófsemdar í komandi kjarasamningum svo þeir fari ekki fram úr hagvexti og framleiðsluaukningu með slæmum afleiðingum til lengri tíma litið.

Mikilvægt er að samspil sé í stefnu í peningamálum og ríkisfjármálum. Þessir tveir armar hagstjórnarinnar mega ekki toga hvor í sína áttina eins og gerðist hér á þenslutímum á árunum fyrir hrun. Stjórn ríkisfjármála og peningamála frá ári til árs getur haft langvinn áhrif á stjórn efnahagsmála eins og dæmin sanna. Missum ekki sjónar á því. Mikilvægt er að hafa þetta í huga þegar rætt er um hagvöxt og kjör landsmanna. Hagvöxtur bætir kjör og því ætti að styðja þær umbætur sem örva hagvöxt.

Viðurkennt er að menntun eykur hagvöxt. Rannsóknir sýna að hvert ár í framhaldsskóla eykur umtalsvert þann hagvöxt sem hver einstaklingur leggur til samfélagsins. Því ætti að leggja aukna áherslu á skólasókn framhaldsskólanema, efla þær aðgerðir sem vinna gegn brottfalli og finna leiðir til að komast hjá því að vísa þeim frá námi sem vilja setjast á skólabekk. Setja þarf þetta strax í forgang með það að markmiði að auka hagvöxt til lengri tíma litið. Hærra menntunarstig mun hafa jákvæð áhrif á hagvöxt þegar til lengdar lætur.

Ég mæli með því að í kjaraviðræðum sem nú standa yfir verði langtímasjónarmiðum sem slíkum gert hátt undir höfði og að viðsemjendur forðist slæmar skammtímalausnir.

Aukinn hagvöxtur byggir einnig á erlendri fjárfestingu. Lausn Icesave-deilunnar með samningum mun hafa jákvæð áhrif á lánstraust Íslands og viðhorf erlendra fjárfesta. Aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum mun einnig búa í haginn fyrir afnám gjaldeyrishafta því að vandinn við afnám haftanna felst ekki síst í því að aðgengi Íslands að þeim mörkuðum er enn takmarkað. Aukaverkanir haftanna eru slæmar og skapa þarf aðstæður svo þeim megi létta. Með þetta í huga geta íslenskir kjósendur lagt sitt af mörkum til þess að hér skapist skilyrði fyrir aukinn hagvöxt og þar með batnandi efnahagsumhverfi og betri kjör með því að greiða samkomulagi við Breta og Hollendinga atkvæði sitt þann 9. apríl nk.