139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði.

501. mál
[16:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef sent hæstv. umhverfisráðherra eftirfarandi spurningar vegna áhuga míns á málefnum Vatnajökulsþjóðgarðs:

1. Er unnið eftir markvissri áætlun að bættu aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði?

2. Hver er staðan í gerð stíga og merkinga innan þjóðgarðsins og gerð korta af svæðum innan lands?

Mér finnst í raun og veru að á þessum tímapunkti ættu þessar spurningar að vera óþarfar því svo sjálfsagt ætti að vera að unnið væri markvisst að því að bæta aðgengi fólks á stýrðan hátt að þessum stærsta þjóðgarði Evrópu. En einhvern veginn finnst mér eins og enn vanti nokkuð upp á að þjóðgarðurinn sé nýttur eins og mætti gera með samstilltu átaki einkafyrirtækja, félagasamtaka og opinberra aðila. Góðar upplýsingar eru um garðinn víða í útjaðri hans, t.d. í nýrri og glæsilegri Snæfellsstofu í Fljótsdal. Í næsta nágrenni þeirrar fallegu byggingar er afleggjarinn upp að Snæfelli en hann er ekki merktur. Hann þyrfti að merkja svo að almenningur geri sér grein fyrir að eftir honum megi komast inn í þjóðgarðinn.

Á Suðausturlandi í kringum Hornafjörð stendur yfir frábært verkefni sem nefnist Í ríki Vatnajökuls. Þar er sýningum, minjagripum og matarmenningu blandað afar smekklega saman en að því er ég best veit er merki þjóðgarðsins ekki hluti af þessu verkefni. Einkaaðilar bjóða upp á ferðir á jökulinn og fleira er í gangi á svæðinu tengt þjóðgarðinum en nafn og merki þjóðgarðsins lítið nefnt. Þurfum við ekki að skoða þessi mál? Þarf ekki að tengja starfsemi tengda svæðinu sem allra mest þjóðgarðinum? Slíkt ætti að vera eftirsóknarvert fyrir alla og í raun ákveðið gæðamerki.

Mig langar því til að fá upplýsingar frá hæstv. ráðherra um hvernig staðan er varðandi merkingar og aðgengi almennt að garðinum. Er stefnan að halda gestum í ákveðinni fjarlægð frá garðinum sjálfum með uppbyggingu í útjaðrinum? Eða munum við smám saman leggja stíga og gefa út kort af afmörkuðum hluta þjóðgarðsins og bjóða fólk þannig velkomið inn í garðinn í stýrðri umferð um hann á þar til gerðum stígum og vegum?