139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

efling skapandi greina.

493. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu menntamálanefndar um eflingu skapandi greina en nefndin er einhuga í tillöguflutningi þessum sem lýtur að því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að koma á formlegum samráðsvettvangi með aðild fulltrúa allra stjórnmálaflokka á þingi, iðnaðarmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og fulltrúa skapandi greina. Verkefni þessa hóps verði að ræða starfsumhverfi þessarar atvinnugreinar og móta tillögur um hvernig styrkja megi stöðu hennar enn frekar í íslensku atvinnulífi.

Kveikjan að tillögunni er rannsókn sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði á hagrænum áhrifum skapandi greina hér á landi en fyrstu niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til að skapandi greinar séu þegar orðin fjölmenn og afar burðug atvinnugrein í landi okkar þó að það hafi sannarlega ekki farið hátt í umræðum um atvinnumál fram að þessu.

Bráðabirgðaniðurstöður þessarar rannsóknar sýna að heildarvelta skapandi greina nam 191 milljarði kr. árið 2009. Þar af var virðisaukaskattsskyld velta 165 milljarðar. Til samanburðar má nefna að velta skapandi greina var talsvert meiri en samanlögð velta í landbúnaði og fiskveiðum, nokkru hærri en í byggingariðnaði og litlu minni en í málmframleiðslu í landinu. Ársverk í skapandi greinum voru alls um 9.400 á árinu 2009 en það svarar til tæplega 6.000 af heildarfjölda á vinnumarkaði.

Í rannsókninni er gerð tilraun til að flokka skapandi greinar og rétt að fara nokkrum orðum um þær því að hér er á ferð nýlegt hugtak í þjóðfélagsumræðunni. Þarna eru undir það sem við mundum kalla listir og menningu, bæði svokallaðar sviðslistir, tónlist, leikhús, dans o.s.frv.; sjónlistir, þ.e. arkitektúr, hönnun, myndlist, handverk o.s.frv.; bækur og útgáfa en undir þann flokk falla bókmenntir, fjölmiðlun, bókasöfn, gagnavarsla og þar fram eftir götunum; það sem lýtur að fjölmiðlaumhverfinu, sjónvarp, útvarp, kvikmyndir, tónlistarupptökur, auglýsingar, og nýmiðlar, þ.e. netið, leikjaiðnaðurinn, samskiptaforrit o.s.frv.

Þessu til viðbótar er flokkað með skapandi greinum í rannsókninni það sem er kallað einu nafni menningararfur og á þá við um safnaflóruna í landinu, byggingar, gagnavörslu, hefðir, venjur, sögur og siði og loks þann hluta ferðaþjónustu sem hefur snertifleti við listir, menningu og afþreyingu.

Í framhaldi af þessum bráðabirgðaniðurstöðum — en rétt er að geta þess að endanleg skýrsla með heildarniðurstöðum er væntanleg í vor — hefur iðnaðarráðuneytið ákveðið að leggja 4 millj. kr. í framhaldsrannsókn sem mun fyrst og fremst beinast að því að skoða hvernig stoðkerfi atvinnulífsins í landinu getur komið til móts við þarfir skapandi greina með sem árangursríkustum hætti. Þá verður áhersla lögð á skapandi greinar og hugverkageirann við úthlutanir á atvinnuþróunarstyrkjum.

Þess má geta að ríkisstjórnin hefur að frumkvæði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sett á fót starfshóp sem hefur það verkefni að meta hvernig bæta megi starfsumhverfi skapandi greina og nýta þau tækifæri sem til eru til frekari stuðnings við greinina. Þessi hópur er skipaður fulltrúum samráðsvettvangs skapandi greina og fimm ráðuneyta og á að skila niðurstöðum fyrir 1. maí nk.

Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram af hv. menntamálanefnd er lagt til að stofnaður verði enn breiðari vettvangur með fulltrúum sem flestra skapandi greina og fulltrúum allra stjórnmálaflokka og sá vettvangur muni taka við þessum fyrstu niðurstöðum samráðshóps ríkisstjórnarinnar, ræða þær og útfæra í smáatriðum auk þess að leggja fram sínar eigin tillögur. Þar verður meðal annars undirstaða skapandi greina á Íslandi; metin þörf fyrir breyttar áherslur í opinberum stuðningi við þennan geira atvinnulífsins, lagt mat á forsendur, ráðstöfun og eftirlit með opinberum fjárveitingum til málaflokksins, auk þess að leggja fram og útfæra tillögur sem geta stuðlað að fjölgun starfa, frekari menntaúrræðum og aukinni nýsköpun innan skapandi greina á Íslandi.

Virðulegi forseti. Íslenskt atvinnulíf hefur í gegnum áratugina einkennst af einhæfni og á síðustu áratugum ákveðinni oftrú á töfralausnir. Það eimir því miður enn eftir af þeirri orðræðu því að opinber umræða um atvinnumál á Íslandi hverfist enn að mjög miklu leyti um fáar og stórar lausnir eins og álver — hvort álver rísi í Helguvík eða á Bakka svo dæmi séu tekin, hvaða virkjanir þurfi að reisa til að knýja næstu stóriðjuver o.s.frv. Á meðan vaxa aðrar greinar úr grasi sem kalla ekki á hagnýtingu náttúruauðlinda en þurfa fyrst og fremst á því að halda að í landinu sé efnahagsumhverfi í góðu jafnvægi, hér sé stöðugur gjaldmiðill, hér séu tiltölulega lágir vextir og verðbólga og almennt stoðkerfi við nýsköpun sé öflugt. Skapandi greinar eru atvinnugreinar af þessu tagi sem hafa mikla vaxtarmöguleika og ég fagna því sérstaklega að í þinginu hafi skapast þverpólitísk samstaða um að skoða með opnum huga leiðir til að virkja þessa atvinnugrein til enn frekari dáða.

Ég legg að lokum til, í ljósi þess að menntamálanefnd stendur sameinuð að þessari tillögu, að málinu verði ekki vísað aftur til nefndar en verði þess í stað vísað beint til síðari umr.