139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

heildarúttekt á starfsemi æskulýðs- og ungmennasamtaka á Íslandi.

494. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu menntamálanefndar Alþingis þess efnis að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að láta vinna óháða heildarúttekt á ráðstöfun opinberra fjárveitinga til starfsemi æskulýðs- og ungmennasamtaka á Íslandi. Ég vek athygli á því að menntamálanefnd stendur einhuga að baki þessum tillöguflutningi og tilefnið er erindi sem nefndinni barst frá Landssambandi æskulýðsfélaga í fyrrahaust í aðdraganda að gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár. Þar komu fram þau sjónarmið að hlutur ungs fólk í stefnumótun og fjárveitingum í þessum málaflokki sé rýrari en efni standa til og að við Íslendingar stöndum þar frændþjóðum okkar annars staðar á Norðurlöndum talsvert að baki.

Í 3. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, kemur fram að ríki og sveitarfélög skuli stuðla að því að ungt fólk eigi þess kost að starfa að æskulýðsmálum við sem fjölbreyttust skilyrði. Talsverðu fjármagni er á ári hverju varið til æskulýðsmála á Íslandi en framlög til málaflokksins nema 194 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Þeir fjármunir skiptast með þeim hætti að nærri 9 kr. af hverjum 10, nánar tiltekið 87%, renna til þriggja aðila, þ.e. Ungmennafélags Íslands, skátahreyfingarinnar og KFUM og KFUK.

Enginn vafi er á því að þessir aðilar vinna afar mikilvægt starf í okkar samfélagi. Hins vegar er skortur á heildstæðum upplýsingum um það hvernig fjármagni þessara aðila og annarra sem njóta opinberra fjárveitinga til æskulýðsmála er varið og hve mikið skilar sér í eiginlegri þátttöku ungs fólks. Nú á tímum mikils atvinnuleysis og niðurskurðar má teljast eðlilegt að skoðað sé hvernig fjármagni er varið og sérstaklega þegar litið er til þess hlutverks sem æskulýðsstarf getur haft við að koma í veg fyrir óæskileg langtímaáhrif á ungt fólk án atvinnu.

Virðulegi forseti. Um helmingur heimsbyggðarinnar er fólk undir 29 ára aldri. Hér á landi er ungt fólk á aldrinum 15–29 ára um fimmtungur landsmanna. Þessi hópur þarf að hafa tækifæri til að taka þátt í stefnumörkun á þeim sviðum samfélagsins þar sem hagsmunir ungs fólks eru í húfi. Mikilvægt er að leita leiða til að virkja ungt fólk í auknum mæli við mótun stefnu í æskulýðsmálum. Þá er brýnt að beita þarfagreiningu til grundvallar allri stefnumótun og ráðstöfun fjárveitinga í þessum málaflokki.

Menntamálanefnd leggur til að í úttekt á starfsemi æskulýðssamtaka á Íslandi verði birt yfirlit yfir þróun fjárveitinga til slíkra samtaka og ráðstöfun þeirra undanfarinn áratug. Þar komi m.a. fram hvaða félög starfa að æskulýðsmálum á Íslandi, á hvaða svæðum og hvernig fjárveitingar ríkisins hafa skipst á milli þeirra á undanförnum árum. Veitt verði yfirlit yfir hlutfallslega skiptingu fjármuna milli skrifstofu- og stjórnunarkostnaðar annars vegar og framlaga til verkefna sem nýtast ungmennum beint hins vegar. Upplýst verði hver sé hlutur ungs fólks, greint eftir kynjum þar sem kostur er, í stefnumótun og ákvarðanatöku viðkomandi samtaka og hvernig mati á árangri af starfi samtakanna sé háttað.

Að lokum leggur nefndin til að þessar upplýsingar verði bornar saman við tilhögun, starfsemi og fjármögnun æskulýðssamtaka annars staðar á Norðurlöndum. Nefndin leggur til að niðurstöður úttektarinnar verði nýttar við stefnumótun stjórnvalda í æskulýðsmálum og liggi fyrir eigi síðar en 1. september 2011.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er sett fram í því skyni að draga saman á einn stað upplýsingar um hvernig staðið er að skipan og framkvæmd æskulýðsmála í landinu. Það má líta á þessa tillögu sem viljayfirlýsingu þingsins um að beita sér á uppbyggilegan hátt í stefnumótun um málefni ungs fólks á Íslandi og viðleitni til að ganga úr skugga um réttmæti ábendinga þess efnis að ekki sé nægilega gætt að því að virkja krafta, hugmyndir og tillögur ungs fólks við mótun framtíðarstefnu í þessum málaflokki.

Ég held að engum manni dytti í hug að móta stefnu í málefnum eldri borgara án þess að hafa þar náið samráð við forsvarsmenn eldri borgara. Á sama hátt hljótum við að vera sammála um að það er nauðsynlegt að ungt fólk á Íslandi hafi skýrt og viðurkennt hlutverk þegar kemur að mótun stefnu í æskulýðsmálum. Höfum í huga að ungt fólk hefur snertifleti og aðkomu að flestum málaflokkum sem snerta menntamál, velferðarmál og efnahagsmál í landinu, hvort sem litið er til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, vinnumarkaðsmála, atvinnusköpunar eða tómstundastarfs. Það er ekki óeðlileg krafa æskulýðssamtaka í landinu að ungt fólk eigi sína fulltrúa þegar stefna er mótuð í þessum málaflokkum og öðrum sem tengjast beint ungu fólki.

Virðulegi forseti. Eðlilegt er að fara vel í gegnum löggjöfina um æskulýðsmál á komandi mánuðum og meta hversu vel lögin þjóna ungu fólki í landinu í reynd. Þar þarf að skoða sömuleiðis hlut Æskulýðsráðs og Æskulýðssjóðs, greina og meta uppbyggingu þeirra eininga og bæta úr þeim ágöllum sem þar kunna að birtast okkur. Mikilvægt er að skoða erlendar fyrirmyndir þegar við metum íslenska löggjöf og það er t.d. athyglisvert að í Danmörku er ekki um að ræða sérstaka löggjöf um æskulýðsmál, en hins vegar er áhersla lögð á löggjöf um frjáls félagasamtök og fræðslustarf fyrir ungt fólk.

Að öðru leyti vil ég spara mér ályktanir þangað til niðurstöður þeirrar úttektar sem nefndin leggur til að verði ráðist í liggja fyrir, en vil að lokum hnykkja á þeim skilningi nefndarinnar að framkvæmd þessa verkefnis verði falin óháðum aðila utan ráðuneytis sem ekki hafi neinna hagsmuna að gæta að verkefninu. Þar koma ýmsir aðilar til greina. Nærtækt væri að leita þar til Ríkisendurskoðunar en einnig kæmi vel til greina að leita liðsinnis utanaðkomandi sérfræðinga, t.d. úr háskólasamfélaginu.

Að þessu loknu legg ég til að ályktuninni verði vísað til síðari umr. og hv. menntamálanefndar.