139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

evran og efnahagskreppan.

[10:47]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég er nýkomin frá Írlandi þar sem ég ræddi við ýmsa aðila um fjármálakreppuna þar í landi. Írar velta mikið fyrir sér gagnsemi evrunnar og kvarta yfir því að Evrópski seðlabankinn hafi brugðist sem lánveitandi til þrautavara. Evrópski seðlabankinn hafnaði nýlega beiðni um lengri lánstíma á lánum til írskra banka. Þess í stað voru írsk stjórnvöld hvött til að leita eftir aðstoð AGS. Írar segja 25% almenna launalækkun ekki hafa dugað til að draga verulega úr fækkun starfa. Mikill brottflutningur ungs fólks er því hafinn frá Írlandi.

Írar kvarta jafnframt yfir því að evran komi ekki í veg fyrir fjármagnsflótta, að björgunarframlag ríkisins til bankanna síðustu tvö ár hafi allt farið úr landi, annaðhvort til að endurfjármagna lán frá þýskum bönkum eða til að fjármagna starfsemi erlendis. Lítið sem ekkert hafi verið lánað á Írlandi síðustu tvö ár. Írar óttast nú að Evrópski seðlabankinn hækki fljótlega vexti til að draga úr verðbólgu í Þýskalandi sem mun auka enn á erfiðleika Íra.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem er að gerast á Írlandi spyr ég hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hvernig evran geti aðstoðað okkur við að komast út úr fjármálakreppunni.