139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Sá veruleiki sem ríkissjóður, og þar með líka sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, stóð frammi fyrir var tiltekinn niðurskurður á fjárframlögum, bæði þessa árs og væntanlega einnig líka á næsta ári. Þá varð að samkomulagi að þessi leið yrði farin. Hún er alls ekki góð en staðreyndin er sú að sjóðurinn átti nokkurt eigið fé sem hægt er síðan að skipta á tvö ár. Með því að ráðstafa því getur hann haldið nokkrum þáttum grunnstarfsemi sinnar og styrkveitinga gangandi þessi tvö ár.

Ég tel og segi það aftur að það er mjög mikilvægt að þessi sjóður landbúnaðarins verði styrktur og efldur. Það sýnir sig að þessar greinar eiga ekki möguleika á að sækja í aðra rannsóknar- og þróunarsjóði með sama hætti og þær hafa getað sótt í þennan sjóð. Hann hefur skilað miklum árangri í gegnum styrkveitingar sínar. Hér hefur verið nefnd ferðaþjónusta, Beint frá býli o.s.frv.

Varðandi það að búvörusamningarnir verði haldnir voru þeir því miður skornir af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á sínum tíma. Í þessum slag er ég stoltur af því að hafa í sjálfu sér staðið vörð um búvörusamningana. (Gripið fram í: … samninga.)

Hitt er svo að það er mín bjargfasta skoðun og ætlan (Forseti hringir.) að styrkja og efla þennan sjóð. Ég vona að ég fái líka öflugan stuðning til þess, m.a. frá hv. þingmönnum. Það fer enginn lengra í þessu máli, frekar en öðrum, en hann er studdur til.