139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, virkjun fyrirmynda o.fl.

599. mál
[18:10]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram að ræða um heilsustefnu fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem er hér fyrirspyrjandi og er, eins og hann hefur réttilega bent á, að vekja athygli á þeirri stefnu og óska eftir því að fá nákvæmari skýringar á því hvernig henni var fylgt eftir eftir að hann yfirgaf ráðuneytið. Hér eru nokkrar viðbótarspurningar varðandi leik- og grunnskólana. Fyrsta spurningin eða stafliður a, er hvort heilsusamleg skilaboð fyrirmynda hangi upp í skólum og íþróttamannvirkjum, en þetta átti að vera komið upp í lok árs 2009. Eins og hv. þingmanni er kunnugt um voru gerð veggspjöld með silfurhetjunum frá Ólympíuleikunum í Peking o.fl. í ráðherratíð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar með skilaboðum um heilsusamlegt líferni. Fjölda veggspjalda var dreift en ekki hefur verið gerð könnun á því hve víða þau hanga skólum eða íþróttamannvirkjum.

Í b-lið er spurt hvort allir leikskólar hafi fengið hvatningu eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna og starfsmanna þar sem komið verði á samstarfi við foreldra. Svarið er að unnið hefur verið með leikskólum í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf að því að stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Verkefnið er þróunarverkefni Lýðheilsustöðvar unnið í samvinnu við sveitarfélögin í landinu og hófst raunar strax árið 2004 og hefur það markmið að bæta lífshætti barna og fjölskyldna þeirra með áherslu á hreyfingu og góða næringu.

Þá hefur verið hvatt til þess að leikskólar vinni samkvæmt handbók fyrir leikskólaeldhús frá árinu 2005. Ekki er hægt að fullyrða að þetta hafi náð til allra leikskóla, en auk þess hefur Lýðheilsustöð boðið upp á námskeið fyrir grunn- og leikskólakennara þar sem þeim er kennt að nota lífsleikninámsefnið Vinir Zippýs sem er alþjóðlegt forvarnaverkefni á sviði geðheilsu fyrir ung börn og var hleypt af stokkunum árið 2005. Um 7 þúsund kennarar frá 113 grunnskólum og 13 leikskólum hafa nú sótt námskeið hjá Lýðheilsustöð og gera má ráð fyrir því að börnin sem fengið hafa kennslu séu nálgast 10 þúsund.

Í c-lið segir að gefa eigi út DVD-disk fyrir leikskóla með leikjum og æfingum til að auka hreyfingu meðal barna og að hann verði kominn í alla leikskóla landsins í lok árs 2009. Þetta hefur ekki gengið eftir. Hins vegar er full ástæða til að vekja athygli á því að unnið hefur verið gríðarlega gott efni, ekki á vegum opinberra yfirvalda en á vegum skóla á alla vega æfingaprógrömmum skipulega á leikvöllum, sem sagt útileikjaverkefni sem hafa verið tekin upp mjög víða í skólum sem mér er kunnugt um og var þegar byrjað áður en ég hætti sem skólastjóri.

Í d-lið var markmiðið að 30% leikskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti. Það verður að segjast eins og er að mismunandi skoðanir eru á ágæti slíkra viðurkenninga þar sem setja þyrfti upp einhvers konar eftirlit með tilheyrandi kostnaði til að tryggja að farið væri í öllu eftir ráðleggingunum. Hins vegar mætti huga að einhvers konar endurgjöf og auðvitað er hugsanlegt að gera þetta með svipuðum hætti og Reyklausir skólar en það hefur ekki verið gert. Þarna þyrfti þá að vinna betur í samstarfi við skólanum að þetta komi inn í sjálfsmatskerfi viðkomandi skóla, hvort sem eru leikskólar eða grunnskólar.

Í e-liðnum er spurt um grunnskólana, hvort þeir hafi fengið hvatningu og eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni. Það kemur aftur í svarinu að sú mæling hefur ekki verið framkvæmd en unnið hefur verið með grunnskólum í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf, sem ég minntist á áðan, að því að stuðla að bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Einnig hefur verið unnið að frekari útfærslum á þessu markmiði í verkefninu Heilsueflandi grunnskólar sem Lýðheilsustöð hefur unnið í samstarfi við m.a. mennta- og menningarmálaráðuneytið, Heimili og skóla og Samband íslenskra sveitarfélaga. Handbók til að styðja við heilsueflingu og forvarnir í grunnskólum var líka gefin út og skólar hafa tekið verkefninu afar vel.

Varðandi f-liðinn þá var spurt hvort náðst hafi markmiðið að 30% grunnskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og fleira. Svarið er að í tengslum við verkefnið Allt hefur áhrif, einkum við sjálf hefur verið veitt endurgjöf úr niðurstöðum kannana um framboð og næringu samkvæmt ráðleggingum Lýðheilsustöðvar til sveitarfélaga en ekki er um að ræða að skólar sæki sérstaklega um viðurkenningu. Lýðheilsustöð vinnur einnig að hvatningu og ráðgjöf í tengslum við verkefnið Heilsueflandi grunnskólar en það verkefni á rætur alveg aftur til 1992 og hófst með Evrópusamstarfi um heilsueflingu í skólum.

Ýmislegt af þessu hefur því gengið eftir en mælingarnar hafa ekki verið framkvæmdar í smáatriðum eða komið á skipulegu umbunar- eða viðurkenningarkerfi.