139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, hvatning til frístundaheimila o.fl.

600. mál
[18:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki bara þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör heldur óska okkur öllum líka til hamingju með að hér hefur náðst mælanlegur árangur ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt. Það er mjög gott. Eins og hæstv. ráðherra sagði virðist hafa verið settur svolítill kraftur og unnið skipulega á mörgum sviðum að málum innan framhaldsskólanna. Hæstv. ráðherra nefndi t.d. í svari við fyrirspurninni í a-lið, um hvort öll frístundaheimili hafi fengið hvatningu eða heimsókn, að árangur hefði náðst. Hvatningin í grunnskólunum til foreldranna um aukna hreyfingu er stór hluti. Það var auðvitað mjög metnaðarfullt markmið að allir grunnskólar yrðu án tóbaks og vímuefna en það er mælt mjög vel og ef ég skil hæstv. ráðherra rétt hefur dregið þar úr notkuninni sem er auðvitað mjög ánægjulegt.

Sömuleiðis um það sem kemur að framhaldsskólunum hefur verið endurvakið HOFF-verkefnið sem stendur fyrir heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum. Það er mjög gott, ég fagna því og þakka hæstv. ráðherra fyrir það. Það að 24 af 32 framhaldsskólum taki þátt í því er gott. Af þessum fyrirspurnum sem við erum búin að renna yfir í dag, þar sem við erum búin að fara yfir öll markmiðin og eigum bara eftir eina fyrirspurn í því, höfum við séð ánægjulegustu svörin fram til þessa. Ég veit að bæði ég og hæstv. ráðherra erum ánægðir með það og örugglega allir sem að þessum málum koma og eiga börn á þessum aldri.