139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er óumdeilanlegt að sú umræða sem hér hefur farið fram í dag var nauðsynleg. Og hún var gagnleg til að taka mælingu á stöðu ríkisstjórnarinnar. Ég efast ekki í eina sekúndu um að aðilar vinnumarkaðarins hafi t.d. verið að fylgjast með. Þeir hafa heyrt þingmenn Vinstri grænna koma hingað og lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórnina en áskilja þann stuðning t.d. því að ekki verði virkjað í neðri hluta Þjórsár. Það er athyglisvert fyrir þá aðila vinnumarkaðarins sem nú sitja við samningaborðið.

Við höfum líka fengið að heyra hæstv. ráðherra Ögmund Jónasson lýsa því yfir — það hlýtur eiginlega að hafa verið skrýtla hjá ráðherranum þegar hann sagði að besta leiðin til að verjast inngöngu í ESB væri að styðja Vinstri græna sem mundu í góðu samstarfi við Samfylkinguna fella tillögu um inngöngu í Evrópusambandið. Sá þingmaður sem kom hér upp og lýsti sig sem sérstakan talsmann sanngirninnar, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, treystir sér ekki einu sinni til (Forseti hringir.) að styðja ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Það er enginn í þessu landi sem ber nokkra von í brjósti um að ríkisstjórnin geti rifið sig upp (Forseti hringir.) og farið að gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Það eina sem hægt er að gera er að segja já við þessari tillögu. (Gripið fram í.)