139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins.

645. mál
[12:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri þátt spurninga hv. þingmanns er það afstaða ráðuneytisins að þær undanþágur sem eru frá gildissviðinu greindar í 2. gr. rúmist innan umgjarðar tilskipunarinnar. Um það hefur ekki verið leitað sérstaklega álits Eftirlitsstofnunar EFTA enda ekki vaninn að hafa fyrirfarandi samráð við Eftirlitsstofnun EFTA áður en til innleiðingar kemur á tilskipunum. Það er hins vegar Eftirlitsstofnunar EFTA, samkvæmt samningum, að hafa eftirlit með innleiðingunni og meta hvort hún er fullnægjandi eftir á. En ég tel mikilvægt að við nýtum það svigrúm sem við höfum til að afmarka gildissviðið því að það er þá alltaf síðar hægt að kjósa að fella út einhverjar af þessum undanþágum og víkka gildissviðið. Ég tel eðlilegt í upphafi að nýta til fulls það svigrúm sem við höfum til að undanþiggja þjónustu sem er sérstaks eðlis gildissviði tilskipunarinnar.

Varðandi að öðru leyti spurninguna um skilgreiningar er það auðvitað þannig að skilgreiningin á þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu er að Evrópurétti mjög byggð á dómafordæmum. Dómafordæmi eru enn þann dag í dag að afmarka þessa þjónustu og færa hana til. Altmark-dómurinn frægi, sem ég man eftir frá 2002, breytti t.d. í grundvallaratriðum hugmyndafræðinni að þessu leyti og setti ný viðmið. Síðan hefur það verið verkefni aðildarríkjanna að útfæra þetta sjálf, en þau þurfa þá alltaf að fara eftir tilteknum efnislegum viðmiðum og þá og þá fyrst getur þjónustan uppfyllt þær kröfur að geta talist þjónusta sem hafi almenn efnahagsleg áhrif.