139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

fjármálafyrirtæki.

696. mál
[13:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, sem er mál nr. 696 á þskj. 1215. Megintilgangurinn með frumvarpinu er að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2009/111/EB, að því er varðar tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustýringar. Hér er um að ræða frumvarp sem má segja að sé tæknilegs eðlis.

Helstu breytingarnar sem innleiðing tilskipunarinnar felur í sér eru þær að skilgreining á eigin fé er endurbætt í þeim tilgangi að tryggja að hægt sé að ganga á allt það eigið fé sem telst til eiginfjárþáttar A til að mæta rekstrartapi í áframhaldandi rekstri.

Þá eru einnig settar nýjar reglur um skiptingu áhættu við útgáfu fjármálagerninga sem tryggðir eru í undirliggjandi eignum, þ.e. við verðbréfun, á milli útgefanda og fjárfestis.

Þá er tekið út ákvæði núgildandi laga sem kveður á um að samtala fyrir stórar áhættur megi ekki fara yfir 800% af eiginfjárgrunni þar sem það hefur ekki þótt gera gagn við mat á samþjöppunaráhættu.

Loks er kveðið á um undanþágu frá takmörkunum á stórum áhættum fyrir tiltekin verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir og rekstrarfélög verðbréfasjóða.

Auk þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu munu allmörg ákvæði tilskipunarinnar verða innleidd í íslenskan rétt með reglum Fjármálaeftirlitsins en í flestum þeim tilvikum er um að ræða nánari útfærslu á tæknilegum atriðum er varða útreikninga.

Virðulegi forseti. Auk innleiðingarinnar eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 52. gr. laganna um hæfi lögmanna til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækja. Nægilegt þykir að lögmönnum í stjórn fjármálafyrirtækja verði meinað að sinna störfum fyrir önnur fjármálafyrirtæki í stað þess að bannið nái til starfa fyrir aðra eftirlitsskylda aðila eins og er í núgildandi lögum.

Þá er einnig lagt til að í ársreikningi fjármálafyrirtækis skuli tilgreina upplýsingar um launagreiðslur og hvers konar greiðslur eða hlunnindi félagsins til hvers og eins lykilstarfsmanns, auk hvers og eins stjórnarmanns og framkvæmdastjóra.

Þá þykir rétt að leggja til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða verði framlengdur um eitt ár, þ.e. til 1. júlí 2012, vegna þess að vinnu við slit fjármálafyrirtækja er enn ekki lokið og því er brýnt að Fjármálaeftirlitið hafi áfram möguleika á að grípa til sérstakra ráðstafana í því skyni að takmarka tjón á fjármálamarkaði.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar.