139. löggjafarþing — 112. fundur,  14. apr. 2011.

vatnalög og rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

720. mál
[14:27]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við seinni spurningunni er nei, enda hefur iðnaðarráðuneytið ekki séð um leigu á þeim auðlindum heldur eru það, eins og ég fór yfir áðan, aðrir aðilar.

Varðandi ríkin sem við miðum við eru 60 ár í Noregi frá upphaflegri leyfisveitingu en þá gengur hið svokallaða „hjemfall“ í gagnið. Þó hefur EFTA-dómstóllinn gert við það athugasemdir. Hvað varðar vatnsaflið er Tyrkland með 49 ár, kantónuríkin Sviss og Þýskaland eru með 40–80 ár. Hvað varðar jarðvarmann er Ítalía með 30 ár, Filippseyjar 25 ár, Tyrkland 30 ár, Indónesía 30 ár og í Bandaríkjunum, t.d. í Alaska og Texas, er tíminn fyrir vatnsafl og jarðvarma allt frá 30 árum og lengri, fer eftir svæðum. Þetta eru þeir aðilar sem við horfum til í þessum efnum.