139. löggjafarþing — 115. fundur,  2. maí 2011.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[16:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fulltrúar frá borgarstjórn Reykjavíkur báðu hv. viðskiptanefnd vinsamlegast um að vera ekki að breyta þessum lögum vegna þess að þeir væru að endurskoða Orkuveituna með, ef ég skildi rétt, þátttöku allra flokka. Ég held að það hefði verið skynsamlegra að verða við því og rjúka ekki til og samþykkja þessi lög.

Hins vegar eru hér breytingartillögur sem ég ætla að allir ættu að geta verið sammála um. Þær felast í því að menn endurskilgreini hlutverk Orkuveitunnar þannig að fyrirtækið verði fyrst og fremst í þessum hefðbundnu sviðum. Því miður fóru menn aðra leið á grunni lagabreytingar sem var unnin á þinginu. Fulltrúar meiri hlutans sögðu í þingræðum að þeir þekktu málið ekki nógu vel. Þess vegna förum (Forseti hringir.) við fram á að breytingartillögurnar verði kallaðar til 3. umr. (Forseti hringir.) og förum fram á fund í hv. viðskiptanefnd (Forseti hringir.) þannig að þá sé hægt að útskýra þessa hluti ef eitthvað er óljóst.