139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

flutningur Landhelgisgæslunnar -- fundur nefndar þingmanna og Evrópuþingsins o.fl.

[14:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrst ég byrjaði umræðuna um störf þingsins ætla ég að þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir svör hans og áherslur sem hann hefur varðandi Landhelgisgæsluna. Ég held að við sem búum á þessu landi og þekkjum hvernig veðráttan getur verið hér og hvernig er að fara um í svona stóru og miklu landi og treystum á að geta sótt sjó og ferðast um landið, þá getur það ekki verið markmið okkar að reka Landhelgisgæsluna áfram eins og við höfum gert.

Staðan hjá henni hefur verið þannig að hún er með hluta af starfsemi sinni í gámum á starfssvæði sínu. Talað hefur verið um að það sé ekki einu sinni samboðið föngum að vera í gámum en við setjum hins vegar Landhelgisgæsluna í gáma. Komið hefur fyrir að aðeins ein þyrla hefur þjónustað allt landið vegna þess að önnur hefur verið í viðgerð. Menn telja nauðsynlegt að hafa að minnsta kosti þrjár og helst fjórar þyrlur til að geta haft öryggisgæsluna eins og við viljum raunverulega hafa hana, sambærilega við það sem þekkist í öðrum löndum. Að sjálfsögðu getum við ekki sem sjálfstæð þjóð sætt okkur við að skipafloti Landhelgisgæslunnar eyði meira og minna tíma sínum undir fánum annarra þjóða.

Með því að flytja Landhelgisgæsluna á Suðurnesin yrði fyrirkomulag á rekstri Landhelgisgæslunnar þannig að við gætum sem sjálfstæð þjóð verið stolt af. Við hefðum starfsmenn á vakt öllum stundum og mun fleiri starfsmenn sem sinntu hlutverki Landhelgisgæslunnar og útkallstíminn væri styttri. Þess vegna hvet ég innanríkisráðherra og stjórnvöld til að (Forseti hringir.) taka í útrétta hönd Suðurnesjamanna og vinna þessa vinnu almennilega, marka stefnuna til framtíðar og staðsetja (Forseti hringir.) Landhelgisgæsluna þar sem er best að hafa hana, á Suðurnesjum.