139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég segja að ég tel afar ólíklegt að þetta frumvarp njóti meirihlutafylgis í þinginu. Ég byggi það auðvitað ekki á neinni vísindalegri skoðun en staðan er einfaldlega sú eins og ástandið er í þinginu í dag að 32 þingmenn styðja ríkisstjórnina og 31 er í stjórnarandstöðu. Fyrir liggur að einn ráðherranna sem ég taldi með þessum 32 styður ekki þetta mál og þar með hafa valdahlutföllin snúist við.

Síðan vitum við auðvitað um verulegar efasemdir hæstv. innanríkisráðherra líka sem hefur látið þær í ljós opinberlega og vera kann að fleiri í stjórnarliðinu séu ekki svo vissir í sínum stuðningi við málið. Á móti kemur að ég hef ekki heyrt sjónarmið frá neinum úr stjórnarandstöðunni um stuðning við þetta frumvarp. Það getur auðvitað eitthvað gerst, það getur eitthvað komið upp, það geta auðvitað einhverjar fréttir borist af því meðan þetta mál er í meðförum þingsins, en fyrir fram mundi ég ekki spá frumvarpinu árangri í þinginu.

Varðandi það sem hv. þingmaður vitnaði til í skýrslu þingmannanefndarinnar rak ég einmitt augun í þetta. Þegar frumvarpshöfundar voru taka saman þær skýrslur sem lágu til grundvallar því að þetta frumvarp var samið voru þarna kaflar m.a. frá rannsóknarnefndinni og jafnvel frekar frá þingmannanefndinni sem ganga í allt aðra átt en þetta frumvarp. Nú kann að vera að önnur atriði í frumvarpinu séu í samræmi við ráðleggingar þingmannanefndarinnar eða niðurstöður hennar en það að færa vald frá þinginu til ríkisstjórnar, frá einstökum ráðherrum til forsætisráðherra (Forseti hringir.) og auka vægi forustumanna stjórnarflokkanna með þeim hætti sem hér er gert, er ekki í samræmi við þær ágætu skýrslur sem við vísum til í þessari umræðu.