139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki verið að safna valdi á eina hönd með þessu frumvarpi og ég vil taka mjög sterklega undir orð hæstv. forsætisráðherra sem féllu áðan í andsvari hennar við hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að því leytinu til. Það er ekki verið að færa forsætisráðherra sem slíkum neitt vald. Það er fráleitt, eins og hér var gert fyrr í dag, að líkja því við einræðisherra sem hafi komist upp í skjóli einhverrar slíkrar umræðu á öðrum öldum.

Það er verið að tala um það að þeir flokkar sem mynda ríkisstjórn og meiri hluta á Alþingi hverju sinni hafi möguleika á því að skipta með sér verkum, ekki endilega bara í upphafi kjörtímabils heldur líka ef eitthvað kemur upp á. Ég hygg að það hefði verið auðveldara að fást við ýmislegt í hruninu ef það hefði ekki bara verið möguleiki til sveigjanleika heldur hefð fyrir slíkum sveigjanleika í stjórnsýslu okkar.

Hrossakaup og ekki hrossakaup, það var auðvitað gerð hörð atlaga að því í þinginu á sínum tíma þegar litlu ráðuneyti var skipt upp í tvennt. Til þess þurfti að breyta lögum. Það var öllum ljóst til hvers það var gert. Það var ekkert óeðlilegt við það að stjórnarandstaðan gerði harða hríð að því. Hér er ekki um neitt slíkt að ræða og ég endurtek að það er ekki verið að flytja frumvarp um að fækka eða fjölga ráðuneytum, langt í frá. Það er verið að flytja frumvarp um að ríkisstjórn, meiri hluti Alþingis á hverjum tíma, geti skipt með sér verkum innan Stjórnarráðsins eftir því sem best og farsælast þykir á hverjum tíma.