139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni að mér fyndist það einnar messu virði að ræða þá hugmynd sem liggur að baki 2. gr., þ.e. að skipa þessum ráðuneytum eins og lagt er til í frumvarpinu. Ég er ekkert að lýsa yfir stuðningi við það. Ég segi bara að við skulum ræða það.

Það sem ég vakti athygli á og hæstv. forsætisráðherra verður líka að fara að meðtaka er að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, fulltrúi hins stjórnarflokksins, hefur lýst yfir mjög eindreginni andstöðu við þessar hugmyndir. Hann gerði það í þingræðu 4. júní 2007 og hann hefur ekki lýst því yfir að hann hafi skipt um skoðun. Hann sagði að það fyrirkomulag sem hæstv. ráðherra legði hér til væri ávísun á hrossakaup og ég trúi því ekki að hæstv. forsætisráðherra vilji vera valdur að einhverjum pólitískum hrossakaupum.

Ég ítreka spurningu um þetta atvinnuvegaráðuneytismál sem hæstv. forsætisráðherra svarar kannski við lok umræðunnar: Hyggst hæstv. ráðherra leggja fram slíkt frumvarp á vordögum í ljósi þess að fáeinir þingdagar lifa eftir til vors?