139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[14:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem ég náði að kynna mér frumvarpið og man eftir tilvitnununum í rannsóknarskýrsluna tel ég að þessu sé öfugt farið. Ef ég man rétt er foringjaræði gagnrýnt í skýrslu þingmannanefndar í kafla 2.4, þ.e. oddvitaræði eins og það er m.a. kallað. Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en með þessu frumvarpi sé verið að stíga skrefið í öfuga átt. Það er verið að undirstrika og auka oddvitaræði eða möguleikann á miklu oddvitaræði með því að fela forsætisráðherra eins konar alræðisvald yfir ráðuneytunum og ekki síst þeim málefnum sem fagráðuneytin hafa haft á sinni könnu og (Forseti hringir.) verður þá að horfa til þess að gert er ráð fyrir að forsætisráðherra geti fært málefni til ef þau hafa ekki klárast.