139. löggjafarþing — 117. fundur,  4. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðuna. Við höfum áhyggjur af sama hlutnum í umræddu frumvarpi eins og komið hefur fram, það er foringjaræðinu sem verið er að innleiða hér, að færa allt vald undir forsætisráðherra. Það er mjög einkennilegt að standa hér klukkan að verða sex nú annan daginn í röð þar sem frumvarp sem nýtur ekki meiri hluta þingheims er til umræðu. Þetta er rætt ítrekað og mikið ósætti er um málið og þá situr hæstv. forsætisráðherra hér í hliðarsal og kjarasamningar aldrei verið á viðkvæmari punkti en einmitt núna. Væri tíma hæstv. forsætisráðherra ekki betur borgið með því að vera einhvers staðar annars staðar en hér í þingsal að ræða þetta umdeilda mál?

Þingmaðurinn fór yfir það sem allir vita að einn ráðherra í ríkisstjórninni styður ekki frumvarpið. Þingmaður úr stjórnarliðinu, hv. þm. Þráinn Bertelsson, tjáði þá skoðun sína í viðtali í dag að hann mundi ekki styðja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason. Það virðist vera alveg sama hvernig Jón Bjarnason greiðir atkvæði héðan í frá, hv. þm. Þráinn Bertelsson getur þá varla greitt atkvæði eins og hann, þannig að ríkisstjórnin er sjálfkrafa fallin. Þannig er það, virðulegi forseti.

Í kjölfarið langar mig að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson að því hvort það foringjaræði sem birtist í frumvarpinu, útþurrkun ráðuneytaheita og ráðherradómsheita, geti tengst því sem gerðist hér í vetur þegar hæstv. utanríkisráðherra þurrkaði út svar hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra til ESB, sem ráðuneyti hans var búið að vinna, og breytti því. (Forseti hringir.) Getur verið að þarna sé verið að skapa svigrúm fyrir það að t.d. utanríkisráðuneytið geti tekið til sín málefni (Forseti hringir.) annarra ráðuneyta o.s.frv.? Er þetta ekki leiðin til að komast fram hjá því?