139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

kauphækkanir og hagvöxtur.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þegar Seðlabankinn segir að verið sé að ræða um óraunhæfar kauphækkanir vill forsætisráðherrann ræða um Hagstofuna. Ég spurði hvaða skoðun hæstv. ráðherra hefði á niðurstöðu Seðlabankans, því bráðabirgðamati að hér gæti verið um of miklar kauphækkanir að ræða miðað við horfur í efnahagslífinu.

Munu kauphækkanirnar skila sér í auknum kaupmætti? Það er okkar verkefni að tryggja að svo verði, ekki satt? Ekki síst stendur upp á ríkisstjórnina að svara því hvernig eigi að fá fjárfestingarstigið upp í þessar hæðir sem hæstv. forsætisráðherra nefnir. Því er enn ósvarað. Stóra vandamálið í íslensku efnahagslífi í dag er að ríkisstjórnin hefur ekki getað svarað því hvar í atvinnulífinu fjárfestingin kemur á næstu árum. Meðan kauphækkanirnar eru umfram hagvöxt verður engin kaupmáttaraukning hjá launþegunum. Þannig er það bara, það er hinn (Forseti hringir.) ískaldi veruleiki.