139. löggjafarþing — 118. fundur,  5. maí 2011.

landsdómur.

769. mál
[13:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Menn velta því væntanlega fyrir sér hvort við séum að ræða gott eða vont mál í eðli sínu og auðvitað má alltaf deila um það. Menn geta haft á því ýmsar skoðanir en í andsvari áðan hjá hv. þm. Merði Árnasyni var mjög athyglisverðu máli slegið á þetta. Ég verð að segja að það er illa komið fyrir einu þingmáli þegar sá sem helst heldur uppi vörnum fyrir það er hv. þm. Mörður Árnason. Ef maður gæti fundið til með þingmáli fyndi ég til með þessu þingmáli fyrir að vera í þeirri stöðu að eiga öngvan vin nema hv. þm. Mörð Árnason. Það eru örlög sem ég hygg að varla sé hægt að kalla yfir nokkurt þingmál.

Hvað er hér um að ræða? Um hvað erum við í raun og veru að ræða þegar við fjöllum um þetta þingmál, það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og er komið til 2. umr.? Tilefni frumvarpsins er að landsdómur hefur verið kvaddur saman. Hann var kvaddur saman vegna þess að búið var að taka um það ákvörðun á Alþingi að ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde. Landsdómur kom þó því aðeins saman að mjög var knúið á um það af verjanda fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra að landsdómur kæmi saman, ella væri hann væntanlega ekki enn kominn saman miðað við allar forsendur.

Kjörtímabili þess landsdóms sem nú er að störfum er um það bil að ljúka. Við allar eðlilegar aðstæður, ef ekki hefði komið til þessarar ákæru á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, væri Alþingi væntanlega að búa sig undir það þessa dagana að kjósa einfaldlega nýjan landsdóm. Þannig hefur það verið allan þann tíma sem þessi lög hafa verið í gildi. Það hefur ekki þurft að velta fyrir sér með hvaða hætti ætti til dæmis að framlengja kjörtímabil sitjandi landsdóms fremur en að nokkrum dettur í hug að velta því upp hvort framlengja ætti kjörtímabil Alþingis eða starfstíma einhverra tiltekinna þingkjörinna nefnda. Ég hef setið á Alþingi í 20 ár og man aldrei eftir því að jafnvel þó að í nefnd sæti hið ágætasta fólk sem allir væru sammála um að væri best til þess fallið að sinna starfi sínu hafi nokkrum dottið í hug að breyta bara lögunum og framlengja starfstíma nefndarinnar, ég tala nú ekki um kjörtímabil Alþingis þó að einhverjum þingmanni þætti kannski dálítið þægilegt að þurfa ekki að ganga undir dóm kjósenda.

Hér eru uppi nýjar aðstæður, þær að það er búið að ákæra einn fyrrverandi hæstv. ráðherra, fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og nú hafa menn komist að þeirri niðurstöðu að það gæti verið dálítið vafasamt fyrir það mál sem til stendur að höfða á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, og Alþingi hefur auðvitað ákveðið að skuli vera höfðað, að ákveða að kjósa nýjan landsdóm. Þetta gæti ekki verið skýrara. Þeir sem flytja málið og þeir sem hyggjast styðja málið gera það með öðrum orðum á þeim forsendum, og gera sér grein fyrir því, að þeir eru þátttakendur í þessu ferli. Hvernig sem menn líta á málið, hvort sem menn kalla þetta illskásta kostinn, besta kostinn eða hvað, er eitt algerlega ljóst, sú ákvörðun sem nú er verið að búa sig undir að taka á Alþingi er beint inngrip í ákæruna og ákærumeðferðina á hendur hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra. Menn geta kallað þetta lítið eða ekki mjög mikið inngrip en þetta er óneitanlega inngrip og hlýtur þess vegna að koma mjög til álita og skoðunar þegar málsmeðferðin hefst fyrir landsdómi hvenær sem það verður.

Núverandi saksóknari í þessu máli boðaði það fyrir nokkrum vikum að ákæru á hendur fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra væri að vænta öðrum hvorum megin við páskana. Nú eru páskarnir liðnir og ákæran er ekki komin fram. Kannski er beðið eftir því að þessi löggjöf líti dagsins ljós, ekki skal ég segja um það, það verður fróðlegt að sjá hvort ákæran lítur dagsins ljós fljótlega eftir þetta. Getur það spilað inn í að saksóknari telji sig vera á betri stað með málið að bíða eftir þessari niðurstöðu Alþingis? Það eru getgátur af minni hálfu en auðvitað eru þetta allt saman áhugaverðar spurningar sem óneitanlega koma upp í hugann.

Kjarni málsins er sá að ef ekki væri búið að taka um það ákvörðun af hálfu Alþingis að ákæra fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra stæðum við ekki hér og ræddum þetta mál. Þá hefði það ekki komið fram. Skýrara getur það ekki verið um það að þetta er beint inngrip í þessi málaferli hvernig sem það er.

Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar. Hann er í fyrsta lagi lögmaður, a.m.k. fyrrverandi lögmaður, og lögfræðingur. Hann er í öðru lagi einn af flutningsmönnum þessa máls, færði rök fyrir máli sínu og er í saksóknarnefndinni þannig að hann má glöggt vita um hvað verið er að véla. Hv. þingmaður sagði að hann teldi óljóst hvort þetta mál gæti valdið réttarspjöllum. Hugtakið réttarspjöll hljómar í eyrum mínum sem leikmanns, kannski sérfræðings í því að setja lög en leikmanns að öðru leyti í lögfræði, sem ákaflega alvarlegur hlutur og vekur að mínu mati augljóslega upp miklar spurningar um stöðu þessa máls. Hann svaraði í andsvörum og ítrekaði hvað eftir annað að það gæti svo sem verið að þetta mál væri innan marka, hann fullyrti ekkert um það. Síðan var ákveðið að láta vaða og sjá hvort þetta slyppi. Þetta vil ég segja, virðulegi forseti, að er ekki til marks um góð vinnubrögð. Vaknar nú enn upp spurningin, minningin og áminningin frá þingmannanefndinni góðu sem hvatti til vandaðra lagasetninga. Ætli við teljum ekki að þegar við fjöllum um lagasetningu sem í fyrsta lagi lýtur að réttarfarinu sjálfu og erum í öðru lagi á brautum sem við höfum aldrei fyrr farið í sögu íslenska lýðveldisins, þ.e. að ákæra og stefna fyrir landsdóm einum fyrrverandi hæstv. ráðherra, að það hefði verið rétt að vera að minnsta kosti 110% viss um að þessi mál væru innan marka, svo vitnað sé í orðalag hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar, og verið alveg klár á því hvort þetta mál ylli réttarspjöllum eður ei? Nei, það er ekki gert. Það er bara látið vaða, lagó og svo er að sjá hvernig þessu reiðir af.

Það er algjörlega deginum ljósara þegar þessi mál eru skoðuð í því ljósi sem við vörpum hér á það, eins og ég hef bent á, að það er verið að breyta leikreglum. Samkvæmt leikreglum sem unnið hefur verið eftir, samkvæmt lögum sem eru í gildi á þessari stundu, samkvæmt lögum sem voru í gildi 28. september þegar Alþingi Íslendinga ákvað illu heilli að ákæra fyrrverandi hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra voru ákveðin lög í gildi er gert ráð fyrir því að það væri starfandi landsdómur og að hann starfaði á tilteknu kjörtímabili. Því kjörtímabili lýkur um miðjan þennan mánuð og þess vegna hlyti þá að blasa við að samkvæmt lögum yrði að kjósa nýjan landsdóm.

Nú kom það fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni að menn hefðu ekki áttað sig á því á þessum tíma að þetta kjörtímabil væri að renna út. Gott og vel, þá er það þannig, menn áttuðu sig ekki á því en það breytir ekki málinu. Staðan er sú að 28. september var ákveðið að ákæra, síðan hefur ýmislegt gerst og mikið vatn runnið til sjávar. Hæstv. fyrrverandi mannréttindaráðherra, með upphrópunarmerki, flutti frumvarp í mörgum liðum til að bregðast við, kom inn í málsmeðferðina, kaus að draga það frumvarp til baka og varð maður að meiri fyrir það. Engu að síður var reynt að breyta leikreglunum. Ég held að þetta sé býsna alvarlegt mál og furðulegt má það vera ef það kemur ekki með beinum hætti inn í þá umræðu og meðferð landsdóms á þessu máli þegar það er klárlega verið að breyta leikreglum.

Hér hefur hv. 1. flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Atli Gíslason, sagt á fyrri stigum að hann hefði talið að ef málin yrðu ekki framreidd með þeim hætti sem verið er að gera með þessu frumvarpi teldi hann að réttaröryggi kynni að vera teflt í tvísýnu. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem mælti fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar tók eiginlega dýpra í árinni. Hún sagði að hún teldi þetta hvergi standast kröfur um réttláta málsmeðferð. Sú staða sem uppi var að gildandi lögum hefði með öðrum orðum ekki staðist kröfur um réttláta málsmeðferð og kynni að hafa teflt réttarörygginu í tvísýnu. Þetta er staðan. Auðvitað eru menn að reyna að átta sig á stöðunni í þessu máli og hvað er réttast að gera. Ég verð að segja að það olli mér furðu að heyra hér að málsmeðferðin í hv. allsherjarnefnd hefði verið með þeim endemum sem hv. þm. Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa lýst.

Hér kemur þetta gríðarlega umdeilda mál sem við mörg hver höfum sagt að stæðust ekki réttarfarskröfur nútímaréttarríkis, stönguðust á við mannréttindasáttmála sem við höfum gert og skuldbundið okkur til, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu, væri hraklegt mál að öllu leyti og hefði verið síðan unnið alveg frá því að því var hrint úr vör 28. september með þeim hætti að það stangaðist á við allar reglur sem eiga að gilda um málsmeðferðarreglur varðandi stöðu þeirra sem sæta ákæru. Síðan er gripið inn í þetta ferli með þeim hætti sem ég hef verið að lýsa. Hefði maður þá ekki ætlað að það yrði að minnsta kosti reynt að vanda til máls af þessu taginu? Menn eru komnir inn á algjörlega nýjar lendur og vita ekkert hvernig hlutunum síðan vindur fram, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði áðan. Það er óljóst hvort þetta mál veldur réttarspjöllum. Samviskan er samt sem áður ekki öðruvísi en svo að þótt lögmaður sem þekkir til mála, situr í saksóknarnefndinni o.s.frv. er í óvissu um það hvort þetta mál kunni að valda réttarspjöllum, einn af flutningsmönnum frumvarpsins, lætur allsherjarnefnd ekki svo lítið að tefja sig í fáeinar klukkustundir á því að fara yfir málið með þeim mönnum sem best mega þekkja til, eins og réttarfarsnefnd. Ég segi eins og Njáll forðum: Það hefði þurft að segja mér þessa sögu þrim sinnum. Engu að síður segja menn nú bara eins og hv. þingmaður, helsti varnarmaður málsins, Mörður Árnason sagði hér: Það er ekki hægt að gera þetta. Það var yfirsjón að gera þetta ekki, sagði hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Svona er staðan. Nú erum við að ljúka 2. umr. Ætla menn síðan virkilega að gera þetta að lögum síðdegis án þess að leita af sér allan grun og skoða þetta mál til hlítar með réttarfarsnefnd eða saksóknara Alþingis sem er beinn aðili að þessu máli eins og allir vita eða verjandi meints sakbornings?

Þetta mál, virðulegi forseti, getur ekki lengur talist farsakennt, þetta er að verða tragedía. Sérstaklega finnst mér þetta farið að verða tragedía fyrir Alþingi og mikill áfellisdómur eftir allt sem á undan er gengið að menn skuli virkilega ætla sér að vinna þessi mál með þessum hraklega og furðulega hætti.

Þetta mál á sér margvíslega forsögu, m.a. þá að hinn 21. október 2010 ritaði forseti landsdóms, Ingibjörg Benediktsdóttir, þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra, sem nú heitir innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni bréf og sendi tillögur um breytingar á lögum um landsdóm. Þær voru í sex tölusettum liðum og voru síðan fyrir handleiðslu hæstv. þáverandi mannréttindaráðherra bornar inn í þingið sem frumvarp. Það er mjög sérstakt að dómarinn í þessu máli skuli hafa beinan atbeina að því að breyta leikreglunum í miðju kafi. Enn vitna ég til hins vitra Njáls og segi: Þetta hefði ég líka þurft að láta segja mér þrim sinnum, að forseti landsdóms ynni að þessu máli með þessum hætti. Síðan var kölluð til ráðslags í þessum efnum saksóknari Alþingis sem hafði skoðanir á einhverjum þessara efnisgreina sem mig minnir að hafi síðan verið tekið tillit til þegar málið kom inn í þingið. Það vekur athygli að þetta frumvarp sem búið var til af forseta landsdómsins og með atbeina saksóknarans skuli hafa verið afturkallað. Hæstv. ráðherra treysti sér ekki, og ég hef sagt áður að er maður að meiri fyrir, til að knýja á um að þetta mál yrði afgreitt af Alþingi, enda hefði verið sérstakt að afgreiða mál sem breytti talsverðum fjölda greina, var frumvarp í átta greinum og tók til allmargra lagagreina, og rammanum utan um löggjöfina um landsdóm til viðbótar við það að framlengja líf landsdómsins eins og hann er skipaður í dag. Þetta er svo undarlegt mál allt saman að það tekur engu tali. Ég held að orð hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Árna Páls Árnasonar, sem líka er lögfræðilega menntaður, séu að verða að áhrínsorðum þegar hann sagði í atkvæðaskýringu sinni þann 28. september þegar þetta óþverramál var samþykkt í þinginu, með leyfi virðulegs forseta:

„Virðulegi forseti. Margt er á huldu um forsendur ákæruliða í þessu máli öllu saman en í engu máli er það jafnljóst og í því sem nú er greitt atkvæði um og liggur mér nærri að segja að allar grundvallarforsendur ákærunnar séu upp í loft.“

Þetta getur varla verið harðari dómur frá einum ráðherra, þingmanni eða lögfræðingi um þetta mál eins og það var í pottinn búið. Síðan tók við þessi undarlega atburðarás öllsömul þegar það kom til dæmis upp fljótlega eftir ákvörðun Alþingis þennan örlagaríka 28. september að Alþingi hefði borið að taka ákvörðun um að skipa saksóknara á þeim tíma. Það er alveg ljóst að svo hefði átt að vera en það var ekki gert. Eins og allir vita leið og beið. Það þurfti að ganga eftir því að saksóknarinn væri skipaður og í mínum huga er alveg ljóst að Alþingi braut lög. Það var fundið að þessu strax og þetta lá fyrir en á það var því miður ekki hlustað og það hlýtur með öðru að koma mjög til skoðunar þegar efnisatriði ákærunnar verða rædd í landsdómi hvernig að þessum málum var staðið.

Ég rakti í ræðu minni við 1. umr. þessa máls hvernig var skrumskælt og sniðgengið í rauninni lagaákvæðið um varasaksóknarann. Það er alveg skýrt í 13. gr. laganna um landsdóm hvert hlutverk varasaksóknara á að vera. Hann á að vera til afleysingar. Hann á að koma inn í ef saksóknari Alþingis forfallast af einhverjum ástæðum en það var ekki gert. Áður en saksóknarinn var ráðinn opinberlega var sá sem ætlunin var að sæti í því embætti farinn að ræða um hlutverk varasaksóknara. Hann er enginn varasaksóknari, hann er orðinn aðstoðarkokkur í þessu máli, dubbaður upp í hlutverk sérstaks aðstoðarmanns saksóknara án þess að ráð sé gert fyrir því fyrir í lögum. Svo velta menn því fyrir sér hvort þetta frumvarp hér standist reglur um réttláta málsmeðferð. Þetta mál allt saman er þannig vaxið að það stenst hvorki reglur um réttláta málsmeðferð né þær reglur um réttarfar sem við viljum hafa á að skipa (Forseti hringir.) né þær reglur sem við höfum undirgengist á alþjóðlegum vettvangi í því sambandi.