139. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2011.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

77. mál
[14:38]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Senn líður að því að þetta þing muni fá mjög stórt verkefni í hendur sem er að fara yfir, við skulum segja flokkun á mögulegum virkjana- og líka verndarkostum þegar kemur að nýtingu náttúru- og orkuauðlinda á Íslandi. Það skiptir þess vegna gríðarlega miklu máli að við séum öll sammála um leikreglurnar sem við erum að samþykkja hér í dag, þ.e. hvaða lagalegu meðferð þessi flokkun muni fá. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli þannig að við getum vandað sem best til verka þegar að þessu stóra verkefni kemur.

Það skiptir nefnilega máli að við fáum yfirsýn yfir það hvaða kosti við ætlum að nýta og hvaða kosti við ætlum að vernda til lengri framtíðar þannig að vonandi getum við sett niður þær deilur sem hafa skipt okkur í já- og nei-hópa undanfarna áratugi, með eða á móti einstaka framkvæmdum, og að við getum nú farið að ræða kostina á heildstæðan hátt.

Ég þakka hv. iðnaðarnefnd fyrir gríðarlega góða vinnu og þinginu öllu fyrir góða samvinnu í þessu verkefni.