139. löggjafarþing — 123. fundur,  12. maí 2011.

brottfelling fyrstu laga um Icesave.

[10:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan held ég að það sé ástæða til að fella þessi lög úr gildi. Ég held að við getum í þessum þingsal öll, nema kannski eitt, verið sammála um það að þeir samningar sem þjóðin felldi í þjóðaratkvæðagreiðslu voru betri en samningurinn frá því í ágúst 2009. Öll nema eitt, segi ég, vegna þess að einn þingmaður, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, greiddi atkvæði með þeim samningi en gegn seinasta samningnum sem síðan var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru því kannski ekki allir á því að sá samningur sem var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslunni hafi verið betri en samningurinn 2009.

Ég held þó að full ástæða sé til að fella lögin úr gildi og óþarfi að þau standi. Ég held að það skipti miklu að þingið fari yfir það vandlega í nefnd og taki þetta frumvarp til efnislegrar meðferðar.