139. löggjafarþing — 124. fundur,  16. maí 2011.

utanríkis- og alþjóðamál.

791. mál
[15:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir með það, þó að ég vildi sjá ýmislegt öðruvísi í þessu sjávarútvegsfrumvarpi, að í því felist kollvörpun á kerfinu, ég held ekki. (ÞKG: Jú.) Nei, eftir sem áður eru ýmsir helstu kostir þess eins og framsalið til staðar enn þá. Hv. þingmaður veit líka að þó að settur sé einhver slatti af aflaheimildum í potta er það gamalgróin íslensk hefð. Við höfum alltaf búið við þetta pottakerfi og bætum nú við einum. Ég held ekki að þetta leggi einhverja steina í götu okkar gagnvart ESB en það má skoða það. Þetta er athyglisvert sjónarmið og hv. þingmaður, sem er áhugamaður um ESB og um sjávarútveg, mun væntanlega leggja fram einhver rök þessu til stuðnings. Ég hef ekki séð þau og sé ekki í fljótu bragði hvað það er sérstaklega sem ætti að gera það nema það gangi eftir sem hv. þingmaður spáir að þetta rústi sjávarútveginum. Það tel ég að sé alveg út í hött, ekki síst miðað við stöðuna í sjónum sem ég hef svolítið vit á (Forseti hringir.) og greini góð tíðindi þar fram undan.